154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[18:22]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir seinna andsvarið. Flokkur fólksins — við stöndum með heimilunum í landinu. Ef þau fá ekki næga raforku þá ber að skammta raforku til stórnotenda til að tryggja raforku til heimila í landinu. Það er kjarninn í þessu frumvarpi, þessu litla frumvarpi, fjögurra greina frumvarpi, þar sem tvær af fjórum greinum fjalla nákvæmlega um það að heimilin í landinu eigi að njóta forgangs. Við styðjum það.

Málið er: Hvernig komumst við á þennan stað? Hvernig stendur á því að við erum núna loksins að innleiða ákvæði reglugerðar tilskipunar ESB frá 2009, að við erum loksins að gera það núna? Ísland er löngu búið að segja við ESA: Heyrðu, við erum búin að innleiða þetta. Það er sennilega búið að setja þetta í einhverja reglugerðina og svo er það geymt í skúffu og ekkert gert.

Vandinn er gríðarleg orkusóun innan flutningskerfisins. Ég ætlaði að fjalla um hana en ég gerði það ekki vegna þess að formaður Flokks fólksins fór í andsvör við framsögumann málsins og hann var algerlega sammála henni um þá gríðarlegu sóun sem er innan flutningskerfisins. Það má vel vera að það sé búið að taka á því á Norður- og Austurlandi að einhverju leyti (Forseti hringir.) en það er enn þá gríðarleg sóun innan flutningskerfisins. Ég vísa til ummæla flokksbróður hv. þingmanns hvað það varðar þegar hann svaraði formanni Flokki fólksins í andsvörum.