154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[18:56]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held nefnilega að það sem hafi gerst í þessu vatnsári sé að þarna sé kominn nýr lágpunktur í lónin sem við erum að kynnast núna. Þá skiptir flutningskerfi raforku gríðarlegu máli til þess að þetta virki allt saman. Þetta hefði gengið allt miklu betur ef svo hefði verið. Svo er hitt varðandi orkuskiptin og kolefnishlutleysið og þessi markmið sem við stefnum að, að flutningskerfi raforku er náttúrlega kjarninn í því öllu saman. Það er það sem ég hef reynt að vekja athygli á í þingsal og tekið umræðuna um í sjö, átta ár. Þessum markmiðum verður ekki náð nema með því. Síðan er það ekki bara það að nýta orkuna betur og orkukerfið heldur líka að tryggja raforkuöryggi út frá því, fýsískt. Þegar við ætlum að treysta fullkomlega á raforku, hætta með jarðefnaeldsneyti og slíkt og brenna því sem er við hliðina á okkur, sem er bara þægilegast, þá þarf þetta að koma til með öflugum hætti. Það held ég að við þurfum að ræða af miklu meiri alvöru hér en við höfum kannski gert.