154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[19:42]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir hans ræðu. Mér finnst það frábært, það er æðislegt að hér skulum við loksins vera að ræða raforkumál og framleiðslu og raforkuskort og uppbyggingu á flutningskerfi raforkukerfiis og tryggja þessa hluti vegna þess að hér hefur ekki verið mikið rætt um þessi mál árum saman. Það er gott að heyra þingmenn ræða um þetta í dag.

Mig langaði rétt að koma inn á það sem hv. þingmaður fer svolítið gegn, þ.e. að stórnotendur geti selt aftur inn á kerfið, sem er bara angi af því að nýta raforkukerfið betur. Það geta komið upp bilanir, það getur ýmislegt komið upp hjá stóriðjunni sem er búin að festa orkusamninga. Þarna fær hún tækifæri til að koma orkunni aftur í not. Það er eðli orkunýtingar og að nýta raforkukerfi sem best, að skapa þær forsendur að það sé hægt að gera það og markaðurinn sjái um að gera það með sem bestum hætti. Af hverju fer hv. þingmaður gegn því að þessi möguleiki sé uppi, að það sé hægt að fara þessa leið?