154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[19:47]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P):

Virðulegi forseti. Þetta frumvarp til laga er endurflutt frá 153. löggjafarþingi með minni háttar breytingum, en hér er boðað til breytinga á nokkrum ákvæðum raforkulaga. Tilgangur lagabreytinganna er að tryggja almenningi og smærri fyrirtækjum forgang að raforku ef grípa þyrfti til skömmtunar vegna óviðráðanlegra atvika, t.d. framboðsskorts, og kemur það fram í greinargerðinni. Þetta sjónarmið er ítrekað frekar í greinargerðinni þar sem fram kemur að frumvarpið tryggi almenningi, þjónustu í almannaþágu og smærri fyrirtækjum forgang að raforku ef til skömmtunar kæmi, en ákvörðun um skömmtun raforku er í raun inngrip á raforkumarkaðinn. Þetta inngrip er fært í hendur flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna. Ráðherra er veitt heimild til að yfirfæra ákvörðunartöku um það hvort grípa eigi til skömmtunar að öllu leyti í hendur flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna, sem eru að vísu ábyrgir aðilar en þó spyr ég mig: Hvert er hlutverk Raforkueftirlitsins hér? Raforkueftirlitið fer með eftirlit raforkumála samkvæmt raforkulögum og samkvæmt þessu frumvarpi fær Orkustofnun það hlutverk að leggja mat á raforkuöryggi á heildsölumarkaði út frá áætlaðri þróun á framleiðslugetu og eftirspurn, en ráðherra getur hins vegar falið flutningsfyrirtækinu að annast matið í heild eða að hluta með reglugerð. Ef þetta frumvarp verður að lögum og aðstæður valda því að grípa þyrfti til skömmtunar þá hefur ráðherra heimild til þess að yfirfæra nánast allt ákvörðunarvald um hvort grípa eigi til skömmtunar eða ekki til flutningsfyrirtækisins og dreifiveitna, eins og ég kom inn á áðan, í stað þess að leyfa Orkustofnun að gegna lögbundnu hlutverki sínu. Með breytingu á lögum er hlutverki þeirra aðila sem gegna þessu hlutverki í núverandi lögum einnig breytt.

Hins vegar er ljóst að þetta frumvarp leggur að mestu ef ekki öllu leyti áherslu á forgang almennings ef aðstæður skyldu koma upp sem hefðu möguleika á að raska raforkuöryggi. Ég velti því fyrir mér hvers vegna þetta frumvarp hefur verið statt í atvinnuveganefnd svona ótrúlega lengi. Líkt og ég kom inn á áðan er þetta frumvarp endurflutt frá 153. löggjafarþingi og var lagt fram á vorþingi í fyrra, ef ég man rétt. Það alla vega dó í nefnd á vorþingi í fyrra og var lagt fram aftur í október 2023, á haustþingi 154. löggjafarþings, en ég veit ekki hvers vegna það hefur sætt svo mikilli töf í atvinnuveganefnd.

Það eru þó nokkur atriði sem mig langar að koma inn á varðandi þetta frumvarp. Ég ætlaði að segja eitthvað allt annað í þessari ræðu en hef nú hlustað á ræður ýmissa hv. þingmanna sem hingað hafa komið upp í pontu og m.a. gagnrýnt EES-samstarfið og hvers vegna við erum að innleiða regluverk Evrópusambandsins um raforkumarkað til að byrja með. Þetta regluverk sem við erum að innleiða og veitir okkur að einhverju leyti stoð fyrir þeim inngripsheimildum sem frumvarp þetta kveður á um, kemur til vegna þjóðréttarlegra skuldbindinga okkar sem leiða af aðild okkar að EES og þar af leiðandi að innri markaði Evrópusambandsins. Ég held að við gleymum því mjög oft hvað hún gerir fyrir okkur, hvaða frelsi hún veitir okkur þegar kemur að ýmsum málum, m.a. viðskiptum, frjálsum flutningum og frjálsri för ýmissa aðila.

Ég verð aðeins að koma inn á sjónarmið sem ég hef heyrt ýmsa hv. þingmenn nefna varðandi það vandamál sem blasir við núna, sem er að vissu leyti framboðsskortur. Það er munur á raforkuskorti og framboðsskorti. Ég kom inn á þetta í andsvörum við hv. þm. Bergþór Ólason áðan og ætla að taka það fram aftur: Vandamálið sem blasir við núna og frumvarpinu er ætlað að leysa skapaðist á markaðnum. Framboðsskortur á raforku varð til vegna — ég ætla ekki að segja að fyrirtæki hafi verið að ofselja orkuna, en hann varð til vegna markaðsbrests. Þar af leiðandi ber að leysa þetta með lausnum inni á raforkumarkaðnum.

Tilskipun 2009/72/EB, sem er hluti af þriðja orkupakkanum og við innleiddum löngu eftir að við áttum að gera það, veitir okkur ákveðnar leiðbeiningar. Þar er kveðið á um inngripsheimild sem má grípa til en hana á að nota í algjörum undantekningartilvikum. Þar er kveðið á um að leggja skyldur á sölufyrirtæki til að gegna hlutverki í þágu opinberrar þjónustu. Þetta er t.d. til þess að ná einhverjum efnahagslegum markmiðum, til að gæta að efnahagslegri þróun á raforkumarkaði sem mér sýnist þetta frumvarp vera að gera. Þetta frumvarp var lagt til eða samið vegna einhverra aðstæðna sem komu upp á markaði og er þar af leiðandi með efnahagslegar rætur. Ég ætla svo sem ekki að fara meira út í það.

Hvað varðar að virkja meira þá höfum við talað um ýmsar náttúruauðlindir þegar kemur að þessari umræðu. Ég hef heyrt fólk tala ansi mikið um vatnsaflið og að nýta þá auðlind sem við erum svo ótrúlega rík af hér á Íslandi. Hins vegar langar mig að vita upp að hvaða marki náttúran þarf að víkja fyrir raforkuþörf almennings. Nú blasir við að íslensk stjórnvöld hafa sett sér mjög háleit markmið þegar kemur að því að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040, án þess að hafa lögfest hvað orkuskipti eru og hvað fellur undir orkuskipti, hvort sem er í almenningssamgöngum, á landi, á sjó eða í flugi. Það er ekki skilgreint og þar af leiðandi er engin skýr lagastoð til að styðjast við þegar kemur að aðgerðum stjórnvalda sem ganga í berhögg við lögfest náttúruverndarákvæði, náttúruverndarmarkmið. Það er ekki hægt að vísa í aðgerðaáætlanir og opinbera stefnu stjórnvalda sem réttarheimild til að réttlæta þennan árekstur laga. Ég velti því fyrir mér hvenær stjórnvöld ætla að lögfesta hugtakið orkuskipti og lögfesta markmið til þess að ná fullum orkuskiptum þannig að það sé a.m.k. til einhver lagastoð fyrir því að virkja meira.

Varðandi vatnsaflsauðlindina þá eru vissulega einhverjir kostir í nýtingarflokki akkúrat núna sem eru vatnsaflsvirkjanir. Það hefur verið töf á þeim en fleiri vatnsaflsvirkjanir eru ekkert endilega að fara að koma í veg fyrir léleg vatnsár. Ég veit ekki alveg hverju við eigum að ná fram með því að virkja meira með vatnsaflsvirkjunum. Af skuldbindingum okkar sem leiða m.a. af EES-samningnum höfum við innleitt vatnatilskipunina í lög með lögum um stjórn vatnamála. Þar er sú skylda sett á öll aðildarríki Evrópusambandsins og EES-svæðisins að koma í veg fyrir frekari rýrnun vatnsgæða. Græn orka er þess eðlis að hún spannar þó nokkur réttarsvið, er sambland af umhverfisrétti og náttúrurétti, og undirbúnings- og framkvæmdaferli slíkra mannvirkja á það til að ganga í berhögg við lögfest umhverfis- og náttúruverndarmarkmið, m.a. þau sem koma fram í lögum um stjórn vatnamála og náttúruverndarlögum. Ég velti því fyrir mér hvar við eigum að draga línuna. Það hefur verið staðfest af Evrópudómstólnum í máli Weser — ég elska þetta mál — frá árinu 2014 að skylda aðildarríkja samkvæmt vatnatilskipuninni er rosalega rík og aðildarríki eiga að grípa til allra nauðsynlegra ráðstafana til að koma í veg fyrir frekari rýrnun vatnsgæða, m.a. með því að neita að veita leyfi til tiltekinna framkvæmda ef eitthvað bendir til þess að þær muni hafa áhrif á vatnsgæði.

Síðan velti ég fyrir mér: Hvað ef réttlætanlegar aðstæður eru fyrir hendi sem kalla á það að brýnt sé að byggja upp virkjun til að koma í veg fyrir raforkuskort? Jú, það hefur líka verið staðfest í dómi Evrópudómstólsins frá árinu 2017 þar sem aðstæður bentu mjög sterkt til þess að raforkuskortur myndi blasa við ef tiltekin virkjun yrði ekki tekin í notkun, en þar voru áreiðanleg gögn, þar var reynt að grípa til allra aðgerða og þar var ekki um að ræða framboðsskort heldur bara skort á framleiddri raforku. Það var ekki eitthvert misræmi á milli framboðs og eftirspurnar raforku og það var ekki verið að ofselja neina orku, það vantaði bara einfaldlega meiri raforku.

Nú eru markmið íslenskra stjórnvalda frekar háleit þegar kemur að því að ná fullum orkuskiptum fyrir árið 2040. Þegar kemur að því að tryggja viðunandi framboð raforku fyrir þessi orkuskipti ásamt því að geta hitað öll hús og orðið við þörfum almennings, mikilvægra innviða og smærri fyrirtækja, þá liggur alveg fyrir að það er ekki nógu mikið framboð raforku. Eigum við að láta náttúruna víkja og jafnvel gjalda fyrir það að íslensk stjórnvöld vilji vera best í heimi og þar af leiðandi virkja meira? Nei, það þarf náttúrlega líka að leita til fyrirbyggjandi aðgerða og markaðarins, sem hefur m.a. verið staðfest af EFTA-dómstólnum í dómi sem varðaði hagnýtingu vatnsauðlinda í Noregi. Þar tók dómstóllinn fram að þegar til staðar eru viðunandi markaðsaðstæður og hinn frjálsi orkumarkaður gegnir sínu hlutverki þá sé ekki réttlætanlegt að grípa til ráðstafana sem skerða lögvarin réttindi samkvæmt EES-samningnum sem náttúran hefur — nota bene samkvæmt EES-samningnum — til þess að framleiða meiri raforku. Þetta sjónarmiðið er líka staðfest í dómi Evrópudómstólsins í máli Schwarze Sulm. Þar var vissulega fallist á að veita framkvæmd og uppbyggingu vatnsaflsvirkjunar undanþágu samkvæmt þeirri heimild sem er til staðar í vatnatilskipuninni með vísan til þess að það vantaði meiri græna orku. Hvernig getum við réttlætt að það vanti meiri græna orku á Íslandi þegar öll okkar orka, 99,9% af okkar raforku, er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum? Þetta kemur fram í tölum Raforkueftirlitsins og er mjög skýrt. Við getum ekki stuðst við sömu forsendur og t.d. Evrópusambandið er að styðjast við til þess að framleiða meiri raforku. Þær eru einfaldlega ekki til staðar. Hvað getur réttlætt þetta? Jú, ef það er ógn við raforkuöryggi almennings. En hvernig réttlætir maður slíka ógn? Það er búið að staðfesta í dómaframkvæmd að við getum ekki réttlætt slíka ógn ef hún er vegna einhvers markaðsbrests.

Síðan heyrði ég líka áðan að verið var að tala um raforkuöryggi í sambandi við þjóðaröryggi og almannahagsmuni. Ég get farið út í dóma varðandi það og hvenær raforkuöryggi teljist til almannaöryggis og þjóðaröryggis, en ég ætla svo sem ekki að fara mikið út í það. Ég er búin að reifa nógu marga dóma í þessari ræðu minni en ég ætla aðeins að lokum að koma inn á Evrópusambandið. Nú hef ég heyrt margar gagnrýnisraddir um orkulöggjöf Evrópusambandsins sem við erum skyldug til að taka upp, en ég vil bara benda á það að hvorki í þriðja eða fjórða orkupakka Evrópusambandsins — við erum vissulega ekki búin að taka upp þann fjórða, það er ekki einu sinni búið að taka upp fjórða orkupakkann í EES-samninginn — er hugtakið raforkuöryggi skilgreint. Það er mjög áhugavert af því að í 18. tölulið 3. gr. íslenskra raforkulaga er hugtakið raforkuöryggi skilgreint. Því var komið á fót með breytingalögum árið 2021, ef ég man rétt. Hvers vegna er Evrópusambandið ekki búið að skilgreina raforkuöryggi í sínum tilskipunum um raforkumarkaðinn? Af því að Evrópusambandið með regluverkinu sínu leggur áherslu á fyrirbyggjandi aðgerðir. Tilgangurinn með innri markaði raforku er að tryggja frjálst flæði raforku milli aðildarríkja Evrópusambandsins og að tryggja að markaðurinn virki eins og skyldi til þess að mynda — ég ætla ekki að fara út í verðmyndunina, en til þess að mynda þetta örugga framboð sem hinn frjálsi markaður á að stuðla að. Hér erum við ekki með fyrirbyggjandi aðgerðir. Við erum með inngripsheimildir og skammtímalausnir í formi slíkra laga. Við erum ekki að líta til framtíðar eða einhvers konar regluverks, við erum ekki að líta til hversu langt megi ganga í að nýta slíkar heimildir. Ef ég má orða það svo þá erum við á háa c-inu þegar kemur að því að tryggja raforkuöryggi almennings. Eins og ég segi þá þarf að gera greinarmun á því hvað telst vera framboðsskortur og hvað telst vera raforkuskortur. Mér þykir rosalega grátlegt að náttúran þurfi að víkja fyrir — ég ætla ekki að segja virkjunarblæti, þetta er ekki virkjunarblæti og að vísu er að einhverju leyti þörf á raforku en við þurfum líka að gæta hófs við það að skerða rétt náttúrunnar. Við setjum lög á fót til þess að vernda náttúruna frá aðgerðum manna en við setjum líka undantekningarákvæði í téð lög til þess að menn geti fengið að ganga á náttúruna í þágu manna. Ég hugsa að ég komi inn á þetta betur í seinni ræðu minni.

Rétt að lokum vil ég koma aðeins inn á skammtímalausnir og hvernig við þurfum að líta til framtíðar. Við erum með til staðar ákveðna samninga sem eru til 40 ára eða eitthvað svoleiðis. Ég er ekki sammála þeim sem halda því fram, ef einhverjir eru, að nauðsynlegt sé að slíta þeim samningum við stórnotendur til að tryggja nægjanlegt framboð raforku. Það væri náttúrlega bara brot á ákveðnum skilmálum og ákveðnum skuldbindingum sem leiða m.a. af EES-samningnum. En ég vil biðla til meiri hlutans að líta aðeins lengra en það að virkja meira, af því að það mun koma lélegt vatnsár, þörf verður á því að jöfnunarorka sé til staðar og við erum ekki einu sinni byrjuð að sjá fyrir okkur hvernig við setjum upp vindorkuver. Við erum ekki einu sinni komin með regluverk í kringum vindorkuver. Við erum enn þá að rökræða um það hvort þau falli innan eða utan rammaáætlunar. Ég veit að það er komin tillaga að nýju lagafrumvarpi um að vindorkan falli innan rammaáætlunar með einhverjum undantekningum, ef hún fellur undir einhver ákveðin skilyrði. Þetta hefur ekki einu sinni orðið að lögum og ég efast um að þetta verði að lögum á þessu löggjafarþingi. Við erum svolítið eftir á þegar kemur að raforkumálum. Við erum komin miklu lengra en önnur lönd hvað varðar framleiðslu á endurnýjanlegri orku en við erum mjög mikið eftir á þegar kemur að nýtingu téðrar orku. Við erum ekki að nýta hana nógu skynsamlega, við erum ekki að horfa á mikilvægi þess að huga að orkunýtni og orkusparnaði. Við viljum bara horfa fram á við og virkja meira og meira til þess að koma á fót einhverjum jöfnum markaði þar sem er jafnvægi í verðmyndun og framboði til þess að anna núverandi eftirspurn og framtíðareftirspurn, án þess að búa til einhverja framtíðarsýn. (Forseti hringir.) Mér þykir það einstaklega miður og ég held að það sé eitthvað sem vanti rosalega mikið í íslenskt lagaumhverfi; framtíðarsýn.