154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:20]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir seinni spurninguna og leiðinlegt að ég hafi bara eina mínútu til að svara. Til að svara í stuttu máli þá tel ég ekki að vandamálið við uppbyggingu virkjana og núverandi framboð á raforku, sem er framleitt af þessum virkjunum, liggi í rammaáætluninni. Það er tekið fram í 1. gr. laga um verndar- og orkunýtingaráætlun, sem er m.a. markmiðsákvæði, að þessi lög eru sett til að tryggja aðkomu almennings. Aðkoma almennings er mikilvæg af því að við erum einnig aðilar að Árósasamningnum, sem er önnur alþjóðleg skuldbinding sem við þurfum að fara eftir. Hins vegar tel ég að vandinn liggi hjá stjórnsýslustiginu en ekki í þinglegri meðferð virkjunarkosta. Mér finnst þetta bara fínt fyrirkomulag. Þar fær pólitíkin, kjörnir fulltrúar ásamt fagaðilum, að koma að ákvörðun um það hvaða virkjunarkostir verða nýttir og hverjir ekki. Hins vegar er stjórnsýsluferlið, eins og ég kom inn á í fyrra andsvari mínu, mjög langdregið. Þetta eru mörg mismunandi leyfi, (Forseti hringir.) þetta tekur ógeðslega langan tíma og önnur lönd í kringum okkur, sem við getum m.a. séð (Forseti hringir.) af regluverkinu sem ég talaði um í RED III, eru að reyna að samræma þetta ferli sem ég tel að við þurfum á að halda.