154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:41]
Horfa

Elín Íris Fanndal (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir afbragðsgóða ræðu sem kom inn á marga mikilvæga þætti þessa máls. Ég vildi hins vegar spyrja hv. þingmann um mjög svo já, við getum kallað það sérstaka búgrein, það er að segja vatnsbúskap. Nú skilst mér að því sé þannig háttað að uppistöðulónin safni vatni hluta ársins en eyði vatni hinn helming ársins, þ.e. að þegar rigningar eru miklar, snjóbráð og leysingar, þá söfnum við meira af vatni en rennur úr lónunum. En þegar þurrt er í veðri eða frost þá rennur meira út úr lónunum en rennur inn í þau. Manni finnst hálfpartinn það orðinn árlegur viðburður að síðla vetrar birti Morgunblaðið fréttir um lága vatnsstöðu í helstu söfnunarlónum Landsvirkjunar, svo sem Þórisvatni. Nú í vetur fengum við fregnir af því að vatnsstaða væri sögulega lág og í raun og veru svo lág að grípa þyrfti til aðgerða. Ég hef áhyggjur af því og vil spyrja hv. þingmann hvort hann deili þessum áhyggjum með mér, þ.e. að þessi vatnsbúskapur sé mögulega í hættu vegna breyttra veðurskilyrða. Munum við upplifa það að þá þurfi jafnvel að loka einhverjum virkjunum eða draga varanlega úr afkastagetu þeirra, einfaldlega vegna þess að það safnast of lítið í lónin á söfnunartímabilinu?