154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:42]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég deili áhyggjum hv. þingmanns. Þetta er auðvitað það sem er bæði böl og blessun íslenska orkukerfisins, að við erum svo ofboðslega háð náttúruöflunum með alla þessa endurnýjanlegu orku. Ég kom inn á það í dag að hugtakið forgangsorka og svo skerðanlega orka, að það væri séríslenskt fyrirbæri að flokka orkuna svona og einmitt út af þessu, að orkuvinnslugetan ræðst af náttúruöflunum og stöðu lóna og vatnsbúskap hverju sinni. Þannig að ég deili áhyggjum hv. þingmanns. Bæði þetta og hitt málið, sem var til mikillar umfjöllunar og umræðu í samfélaginu í kringum síðustu áramót, snúast auðvitað um að bregðast við þessari stöðu.