154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[20:59]
Horfa

Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Svo það sé sagt þá lá alltaf fyrir að þetta væri ekki heildarendurskoðun heldur væri verið að stíga skref. Ég hef litið svo á að hér sé verið að stíga ákveðin skref einfaldlega vegna þess að þeirra er þörf og það hafi að einhverju marki með aðstæður að gera en ekki síður algjöran skort á því að stjórnvöld hafi sinnt þessum málaflokki með þeim þunga sem á hefur þurft að halda. Maður hefur tekið eftir því að það virðist nokkuð breið sátt um þessa leið sem farin er og unnið er í samræmi við niðurstöður starfshóps. Það er allt saman jákvætt. En auðvitað slær það mann aðeins að fá svona umsögn inn í dag þegar við erum í 2. umræðu málsins og heyra þessa hvössu gagnrýni. Ég skil það sem hv. þingmaður er að segja, að búið sé að bæta aðeins í frá því sem var, en ég hefði haldið að það hefði farið betur á því af hálfu meiri hlutans, sér í lagi í ljósi reynslunnar úr atvinnuveganefnd, að hafa lagatextann einu sinni ágætlega skýran.