154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[21:02]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S):

Herra forseti. Við ræðum hér í 2. umræðu nefndarálit meiri hluta atvinnuveganefndar um frumvarp um breytingu á raforkulögum, um raforkuöryggi. Við höfum farið vítt og breitt um málið á átta til níu klukkustundum í þingsal í gærkvöldi og í dag og víða komið við. Í andsvörum hef ég lagt töluverða áherslu á þann þátt sem snýr að markmiði raforkulaga, eins og kemur fram í nefndaráliti meiri hlutans. Markmiðið er að stuðla að hagkvæmu raforkukerfi og efla þannig atvinnulíf og byggð í landinu og skapa forsendur fyrir samkeppni í vinnslu og viðskiptum raforku, með þeim takmörkunum sem nauðsynlegar reynast vegna öryggis raforkuafhendingar og annarra almannahagsmuna. Einnig kemur fram í nefndarálitinu, sem ég held að sé gríðarlega mikilvægt atriði, þjóðaröryggisþátturinn sem tengist raforkukerfinu. Hér erum við kannski að fást við anga málsins sem snýr að almenningi og almennu atvinnulífi, ekki stórnotendum, og að tryggja aðgengi að raforku. Það er líka komið inn á þætti eins og nýtingu og sölu á glatvarma, sem ég tel mjög jákvætt og kom inn á áðan. Þetta er ákvæði sem kom inn í raforkulög fyrir þremur árum um hvernig hægt væri að nýta hann betur og hér er ítrekað hvernig hægt er að standa að því.

Hv. þm. Jóhann Páll Jóhannsson kom inn á það sem ég vil velta fyrir mér sem snýr að flutningsfyrirtækinu Landsneti varðandi ákveðin viðmið fyrir skömmtun raforku ef upp koma ófyrirséð atvik. Flutningsfyrirtækið getur eingöngu skammtað magn til viðskiptavina sem eru stórnotendur og dreifiveitur en ekki til almennra notenda. Mögulega er það tengt þessu sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni áðan, sem er minnst á hér í greinargerð í málinu. Það sem er verið að leggja til í breytingartillögum er kannski helst þetta aðgengi, að við skömmtun skulu njóta forgangs heimilisnotendur, mikilvægir samfélagsinnviðir og aðilar sem ekki hafa samið um skerðanlega notkun, ef þessar aðstæður koma upp.

Þetta er flókið verkefni, allt sem tengist raforkunni. Ég þekki það af eigin raun þegar við vorum fyrir þremur árum með heildarendurskoðun raforkulaga í atvinnunefnd þegar ég var þar. Þetta var líka rætt töluvert fyrir þremur árum og var líka tekið upp í orkustefnu til 2050, við sem sátum þar, hópurinn skilaði af sér 2020, þar var líka umræða um raforkuöryggi þannig að þessi mál hafa verið lengi í umræðu og hvernig hægt væri að sjá þetta fyrir sér.

Það ber að fagna þessari umræðu um raforkumál þjóðarinnar, að hún sé tekin hér í þingsal. Við ræðum þau málefni allt of sjaldan. Græn, endurnýjanleg orkuvinnsla er ein helsta stoð og grunnur að þeim góðu lífskjörum sem við Íslendingar búum við og mikilvæg þegar við metum og byggjum upp samkeppnishæfni þjóðarinnar. Eins og við þekkjum er hvergi framleidd meiri orka á hvert mannsbarn en á Íslandi. Síðasta tala sem ég heyrði var 58 MW, landið í öðru sæti, Noregur, var með 28 MW. Í þriðja og fjórða sæti eru lönd með kannski 30% af því sem er framleitt hér af raforku, þannig að það hefur lengi verið vitað að þetta er mjög stór hluti af okkar lífskjörum en auðvitað ber að fara vel með með þessa auðlind okkar svona út frá náttúrunni.

Eins og ég kom inn á áðan held ég að þetta séu að verða einar tíu, ellefu klukkustundir sem við erum búin að ræða það frumvarp sem liggur hér fyrir og ég held að að mörgu leyti hafi umræðan verið góð og góð fyrir þingið um mikilvæg mál, grundvallarmál, og vonandi nýtist það okkur í framhaldinu. Það hefur komið fram í umræðunni að heldur hefur hægst á orkuöfluninni á undanförnum árum. Við þekkjum að Búrfellsvirkjun 2 og Þeistareykjavirkjun eru kannski helstu orkumannvirki á síðustu tíu árum. En þó var rammaáætlun 3 samþykkt fyrir tveimur árum eftir góða vinnu í umhverfis- og samgöngunefnd þannig að það er komin samþykkt rammaáætlun sem verið er að vinna með og síðan þekkjum við þessi sameiningarfrumvörp sem hafa verið í þinginu og við nokkrir þingmenn hér, sem sitjum í umhverfis- og samgöngunefnd, höfum verið að takast á um og reyna að leiða til lykta í vetur. Þau eru að einhverju leyti hluti af því umhverfi sem við höfum komið okkur upp í kringum þessi mál.

Við eigum okkur stór markmið um kolefnishlutleysi og orkuskipti, við Íslendingar, og við ætlum að rafvæða samfélagið á ekki svo mörgum árum, höfum stór og háleit markmið um það og það er gríðarlega mikilvægt, þau eru náttúrlega líka þjóðhagslega hagkvæm og spara gjaldeyri og annað, eru hagstæð fyrir samfélagið. Það gæti sparað a.m.k. 100 milljarða núna í innkaupum á jarðefnaeldsneyti til viðbótar við það sem við þekkjum, tölur sem eru töluvert hærri en 100 milljarðar, að hita upp húsin okkar og annað sem við höfum komið okkur upp á að nýta jarðvarma í á síðustu áratugum. Það er gríðarlegur akkur í því fyrir samfélagið að nýta þessar auðlindir, grænu auðlindir.

Til þess að ná markmiðum um rafvæðingu samfélagsins er mikilvægt að við höfum öflugt raforkukerfi þar sem flutningskerfið er raunverulega kjarninn í öllu því kerfi, sem nýtist með hagkvæmum hætti, að við nýtum vatnsaflið, jarðvarma og mögulega vindorku ef við förum þá leið, sem við erum nú að fást við í dag í hv. umhverfis- og samgöngunefnd. Ef einhver niðurstaða næst þar gæti vindorka verið hluti af því dæmi. En það hefur alltaf verið vitað að þegar við erum að nýta græna endurnýjanlega orku þá getur náttúran oft gripið inn í eins og hún er að gera í ár, þennan veturinn. Þetta er versta vatnsár sem Landsvirkjun hefur átt í frá stofnun fyrirtækisins sem hefur leitt til orkuskerðinga og vandamála tengdra því. Það ber líka að líta á það að a.m.k. tvö ár á undanförnum þremur árum hafa verið mjög slæm vatnsár og 2014 var líka mjög slæmt vatnsár, það versta fram að þeim tíma. Þetta er kannski einhver nýr veruleiki sem við höfum verið að eiga við að undanförnu. Síðan hefur orkuverð náttúrlega hækkað, tekjurnar orðið meiri og góð sala á raforkunni og svo er að stilla þetta allt saman í kerfi sem byggist á náttúrunni. Þetta samspil í lokuðu raforkukerfi getur verið erfitt.

Grundvallaratriði er að tengja lónin, svæðin þrjú, Kárahnjúka, Blöndulón og Þjórsár- og Tungnaársvæðið saman með öflugu flutningskerfi þannig að það virki sem ein heild. Á undanförnum árum hefur náðst töluverður árangur — það hlaut að koma að því — á Norðausturlandi. Á síðustu árum hafa svæði verið tengd saman með Kröflulínu 3; Fljótsdalsstöð yfir á Kröflusvæðið og síðan aftur frá Kröflusvæðinu til Rangárvalla á Akureyri með Hólasandslínu 3, þannig að á örfáum árum hefur orðið mikil breyting þar eftir slæman orkuskort í 15–20 ár þar sem raunverulega allt stöðvaðist á því svæði. Nú er megináherslan á að tengja saman frá Eyjafirði suður í Hvalfjörð, á Grundartanga, með Blöndulínu 3, Holtavörðulínu 1 og 3. Það er stóra verkefnið og næst vonandi árangur á næstu árum, við sjáum fyrir endann á því að það byggist upp og vonandi verður það kerfi komið innan einhverra fárra ára vegna þess að það mun gjörbreyta stöðunni. Það er talið að þessi vatnsskortur sem hefur verið í uppistöðulónum á síðustu árum og raforkuskömmtun í kjölfarið — það hefði mátt koma í veg fyrir það ef þetta flutningskerfi hefði verið komið. Eins og með Blöndulínu, eins og var með línurnar austan við Eyjafjörðinn, þá hefur það verið áratugavandamál að koma þessu línum á, hefur seinkað gríðarlega og hefur haft mikil áhrif á atvinnulíf á þeim svæðum. Þannig að það er stóra verkefnið. Sá sem hér stendur leggur áherslu á að þetta sé raunverulega það sem tekist er á við, það er fyrsta vers að klára þetta. Það opnar líka á mögulega kosti sem eru í rammaáætluninni eins og við þekkjum, kosti við Blönduvirkjun, í farvegi Blöndu. Þar eru þrír kostir upp á 30 MW og fleiri kostir sem verða mögulegir í nýtingaráætlun rammaáætlunar 3 þegar flutningskerfi raforku býður upp á það.

Fyrir þremur árum þegar sá sem hér stendur var framsögumaður máls um raforkulög í hv. atvinnuveganefnd, þar sem við tókumst að einhverju leyti á við svipuð mál, þá vorum við að vinna í því frumvarpi með markmiðsgrein raforkulaga um að tryggja fullnægjandi raforkuöryggi, og lagt var upp með að horfa á hugtakið í víðara samhengi en aðeins raforkukerfið sjálft líkt og nú er. Þá var skilgreiningin á raforkuöryggi sem unnið var með þessi:

„Raforkuöryggi felst í að notendur hafi aðgang að raforku þegar hennar er þörf og þar sem hennar er þörf, með hliðsjón af almennri stefnumörkun stjórnvalda á hverjum tíma og skilgreindum áreiðanleika og gæðum. Viðmið fyrir fullnægjandi raforkuöryggi skulu nánar útfærð og skýrði í reglugerð sem ráðherra setur.“

Þetta hugtak hefur bara verið vandamál. Hér er það komið enn á ný, þremur árum seinna, í þessari vinnu sem hv. atvinnuveganefnd hefur verið að fást við undanfarna mánuði. Þetta vandamál hefur verið uppi lengi. Í orkustefnunni til 2050, sem ég minntist á áðan, er þetta orðað mjög almennt. Þar er talað um að orkuþörf samfélags sé ávallt uppfyllt, það var þessi setning og einhver meiri texti um það. En ég held að stóra atriðið sem við erum að fást við hér séu mjög breytt sjónarmið margra varðandi raforkuöryggi og það var raunverulega aðventustormurinn í desember 2019 þegar miklar truflanir urðu á flutnings- og dreifikerfi raforku í vondu veðri sem sýndi hversu mikilvægt er að auka afhendingaröryggi raforku, sérstaklega á svæðum sem búa við skert orkuöryggi líkt og á Vestfjörðum og á Norðurlandi vestra. Það sama á við um svæði þar sem bregðast þarf við náttúruvá eins og jarðskjálftum og eldgosum eins og á Reykjanesi undanfarin þrjú ár. Það hefði verið gott ef Suðurnesjalína 2 hefði verið komin þegar hraunið fór yfir heitavatnsleiðsluna þar. Sem dæmi þá datt rafmagnið út í einhverjar sex klukkustundir, ef ég man rétt. Við erum stöðugt að sjá alvarleg atvik koma upp sem þarf að bæta úr.

Við ræðum hér alltaf reglulega þingsályktunartillögu þess ráðherra sem fer með orkumálin um uppbyggingu flutningskerfis raforku. Mig grunar að það hljóti að fara að koma að næstu umræðu, ég held að það sé á þriggja ára fresti sem sú umræða á að fara fram þannig að það fer að styttast í að hún verði tekin upp. Það er svona það sem ég held að sé mikilvægt að fari fram fljótlega.

Við höfum líka aðeins komið hér inn á glatvarmann, sem ég held að sé bara einn angi af þessu máli, til þess að bæta orkuöryggi og það er gott að minnst sé á það. Við tókum þetta upp í breytingartillögu við frumvarp um raforkulög fyrir þremur árum, við sem vorum í því máli, þ.e. bæði það að geta tengt beint við virkjun upp að ákveðnu marki og síðan að virkja glatvarmann frá stóriðjunni. Nú eru einmitt hugmyndir um það eins og á Grundartanga, við erum að sjá þetta víðar, og áhugi á að fara betur í það. Allt þjónar það því að nýta orkuna sem allra best og styrkja raforkukerfið þannig að það er ánægjulegt að sjá.

Ég er svo sem búinn að fara í gegnum þjóðaröryggisvinkilinn hérna í andsvörum í dag og hef komið víða við þar. En það er áhugavert, það hefur aðeins verið komið hér inn á það, að nú á einum áratug erum við búin að fá þrjú slæm vatnsár, svo slæm að við höfum ekki séð slíkt áður í 60 ára sögu. Það er eitt sem við þurfum að hafa í huga þegar við erum að styrkja kerfin okkar sem snúa að raforkumálunum, hvort hér sé að skapast eitthvert sérstakt ástand sem við þurfum að bregðast við eða hvort þetta sé bara eitthvað tilfallandi. En þegar við erum með þetta lokaða kerfi, raforkukerfi, sem byggir, eins og ég segi, á endurnýjanlegri grænni orku, sem gengur út á að gæta að raforkuöryggi, þá þurfum við að hugleiða allt svona og nota allar leiðir til að styrkja það kerfi sem er ótengt öðrum kerfum. Þetta er flóknara heldur en ef við værum að brenna jarðefnaeldsneyti bara við hliðina á okkur, hvort sem það er fyrir bíl eða að hita upp hús eða hvað annað. Það verður alltaf þetta flutningskerfi og dreifikerfi sem skiptir höfuðmáli fyrir okkur. Það er alveg hægt að tala um að við Íslendingar höfum náð miklum árangri varðandi dreifikerfið. 75% af dreifikerfi í landinu eru komin í jörð. Eftir slæm veður 1991 og 1995 var tekin ákvörðun um að fara með dreifikerfið eins mikið í jörð og hægt væri á lægri spennu. Nú eru væntanlega yfir 75% af kerfinu komin í jörðu. Það var byrjað á verstu svæðunum. Þar hefur náðst mikill árangur sem snýr einmitt að raforkuöryggi kerfisins. Það er lengi hægt að tala um þessi mál en ég held að þetta sé bara komið ágætt. En það er gott að sjá hversu góð og almenn umræða hefur verið hér í dag um þessi mál og hversu margir hafa tekið þátt. Ég held að aldrei hafi jafn margir tekið þátt í slíkri umræðu í þessi sjö til átta ár sem ég hef verið hér. Ég held að það sé jákvætt upp á alla frekari umræðu að taka þessa umræðu sem er dýpri en oft áður um þessi mikilvægu mál. — Ég hef lokið máli mínu, herra forseti.