154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[21:32]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Eins og kom fram í fyrri andsvörum mínum hef ég ekki lesið umsögnina sem kom frá ASÍ varðandi þetta mál þannig að það er erfitt fyrir mig að tjá mig um það. Það verður kannski að taka fram að það eru þrjú ár síðan sá sem hér stendur sat í atvinnuveganefnd að fást við svipuð mál þannig að ég hef ekki tekið þátt í þessari umræðu í vetur sem við erum að fást við. Málið fer núna, eins og ég skil umræðuna og ég held að ég hafi örugglega rétt fyrir mér, aftur til atvinnuveganefndar á milli 2. og 3. umræðu og þá væntanlega hefur nefndin tækifæri til að fara yfir þessi gögn og ræða það efnislega sem snýr að umsögn ASÍ og mögulega öðrum þáttum sem hafa komið fram í umræðunni í dag. En eins og ég sagði áðan hef ég ekki trú á því að hér sé verið að finna endilega lausnina sem mun verða til næstu margra ára. Ég held að þetta sé þannig mál og miðað við þessi ár sem sá sem hér stendur hefur verið á þingi þá hefur þetta verið regluleg umræða og alltaf að þróast á einhverjum nýjum forsendum. Forsendurnar eru sífellt að breytast. Kannski er erfitt að ná utan um þetta heildstætt til að geta brugðist við öllu sem getur komið upp á. Eins og hefur komið fram hér er kannski þörf á heildarlöggjöfinni sem gæti þá einhvern veginn náð utan um þetta. En það er erfitt fyrir mig að bregðast við því sem kemur frá ASÍ þar sem ég hef ekki lesið það ágæta plagg.