154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[21:37]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Njáli Trausta Friðbertssyni fyrir sína ræðu og tek undir með honum um mikilvægi þess að við ræðum um orkumálin og allar hliðar þeirra oftar og betur en við höfum verið að gera á undanförnum misserum. Ég fagna því að við höfum átt þetta samtal hér í dag og í gær af þessu tilefni, vegna þessa frumvarps, en kannski sýnir það okkur líka að við erum svolítið fálmandi þegar kemur að heildarmyndinni í stöðu orkumála hér á landi, í atvinnustefnunni, sem ég ætla að fá að nefna hér aftur, og í rauninni því í hvað við viljum verja þessari dýrmætu auðlind og hvernig við viljum nýta hana á sjálfbæran og góðan hátt.

Mig langaði samt að nota tækifærið hér af því að ég veit að hv. þm. Njáll Trausti Friðbertsson er glöggur á staðreyndir og hann er auðvitað eins og allir vita þingmaður Sjálfstæðisflokksins og stuðningsmaður þess flokks. Ég hef lengi verið að reyna að fá svar við þeirri spurningu hvað gerðist á milli annars og þriðja áfanga rammaáætlunarinnar. Hvers vegna liðu níu ár á milli afgreiðslna þessara tveggja áfanga? Þó svo að vissulega væri verið að kynna hugmyndir og reyndar farið í ákveðnar aðgerðir 2015, hvernig stóð á því að á vakt Sjálfstæðisflokksins tókst ekki að afgreiða þriðja áfanga rammaáætlunar fyrr en 2022? Mig fýsir að vita það og þess vegna spyr ég hv. þingmann.