154. löggjafarþing — 118. fundur,  6. júní 2024.

raforkulög.

348. mál
[22:02]
Horfa

Bergþór Ólason (M) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka andsvarið. Eins og flest í þessu lífi er sumt gott og sumt vont af því sem kemur sem einhver heildarpakki hingað heim. Ég held að við ættum alltaf að nálgast þessi mál á okkar forsendum, bara með það í huga hvar við byrjuðum, hver núllpunkturinn var, þegar við höfum gengið í gegnum það sem sumir kalla fyrstu og önnur orkuskiptin hér heima, hitaveituvæðinguna, rafmagnsframleiðsluna. Ég held að við séum dálítið eins og barnið sem er að reyna að troða þríhyrningnum í hringlaga gatið á leikfanginu sínu. Við erum að reyna að troða regluverki, sem er hannað utan um Evrópuþjóðir sem eru í allt annarri stöðu en við erum í hér heima, yfir á okkar raunveruleika. Það að slíkar sendingar komi frá embættismönnum í Brussel er ekki til bóta hvað það varðar að komast áfram hér heima okkur til gagns. Ég held að við getum náð alveg gríðarlega miklum árangri (Forseti hringir.) en ég held að okkur greini á um það hverjar forsendurnar eru, hver drifkrafturinn á að vera. Ég held að hann eigi að vera efnahagslegur (Forseti hringir.) og þjóðaröryggislegur en mér segir svo hugur að hv. þingmanni hugnist loftslagsmarkmiðin best (Forseti hringir.) hvað það varðar.