154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

útgáfa læknisvottorða .

[15:27]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Guðnýju Birnu Guðmundsdóttur fyrir góða fyrirspurn. Það er rétt, við höfum verið undanfarnar vikur að fara í gegnum þetta lið fyrir lið, má segja, með heilsugæslulæknum og barnalæknum og höfum verið að skoða tilvísanakerfið á því sviði. Við höfum líka verið að skoða fjölmarga aðra þætti. Kröfurnar um vottorð koma annars staðar frá, þær koma frá vinnumarkaðnum, koma frá menntakerfinu. Þannig að þetta er kannski aðeins flóknara en svo að geta bara setið við og hoggið þetta niður en við höfum verið að fara í þetta núna lið fyrir lið. Við höfum líka verið að skoða það mikla magn af upplýsingum sem við höfum verið að skapa í samskiptum í gegnum Heilsuveru. Við höfum líka horft á tilvísanakerfið með sjúkraþjálfurum og nú höfum við nýverið samið við sjúkraþjálfara þannig að þar er búið að fella niður ansi mikið af tilvísunum sem snúa að fyrstu sex skiptunum og síðan er það samstarfsverkefni fyrir þá sem þurfa fleiri skipti og tengist samningnum. Við munum núna, og það liggur fyrir, afnema tilvísunarskyldu að hluta og í samvinnu við lækna og veita heimild beint til sérgreinalækna og spítala að tilvísa vegna barna og þannig munum við horfa inn í næstu þrjá mánuði, taka mið af því, eins og hv. þingmaður fór yfir, horfa þá á stöðuna og spyrja: Er þetta virka? Þurfum við að ganga lengra?