154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:39]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni ræðu sína og verð að viðurkenna að ég stóðst ekki mátið að koma hér í andsvar þegar ég hugsaði til þess að við deilum áhuga á sveitarfélaginu Ölfusi í tengslum við nýtingu auðlinda. Það eru alltaf ákveðin konkret dæmi sem sýna okkur fram á veikleika í regluverki okkar. Orkustofnun hefur verið mjög ötull málsvari almannahagsmuna undanfarin misseri og hefur bent á að inn á hennar borð rati ótal mörg mál sem hafa með auðlindanýtingu að gera og þar vorum við farin að sjá ákveðna mynd teiknast upp. Ég nefni þetta vegna þess að í samhengi þess að það eigi að sameina stofnanir til að gera stærri og sterkari einingar hefur verið bent á af ráðherra að Orkustofnun sé of lítil til að valda hlutverki sínu. Ég held að við umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar hafi komið í ljós að þessi sameining muni ekkert breyta því vegna þess að þó að þú sért með starfsmann í vatnsmálum í Orkustofnun og annan starfsmann í vatnsmálum í Umhverfisstofnun sem geta myndað einhverja vatnsskrifstofu í nýrri sameinaðri stofnun þá er ekkert endilega gefið að þessir starfsmenn séu að nálgast sömu verkefni, hvað þá úr sömu átt. Ég held því að þarna sé sýnd veiði en ekki gefin, auk þess sem ráðherrann er mjög óljós með það hvort hagræðing muni skila sér inn í stofnunina til að bæta þjónustuna eða hvort henni verði tappað af stofnuninni og bara látin renna í ríkissjóð til að bæta reikninginn þar.

En af því að ég byrjaði á því að tala um Ölfusið langar mig að taka sem dæmi vatnið, ásókn í vatn í sveitarfélaginu. Ég sá í einhverri umhverfismatsskýrslunni að HPM áætlar að taka 95 sekúndulítra, Geo Salmo 750, Thor landeldi 500 (Forseti hringir.) og First water 500, en það er ekkert vitað um samlegðaráhrifin af þessari vatnstöku. (Forseti hringir.) Er verið að tappa of miklu af? Eða öllu heldur: Hver er (Forseti hringir.) í alvöru að vakta þetta almennilega? Þarf ekki meira en bara þjónustugjöld inn í Orkustofnun? Þarf ekki að styrkja hana til að sinna þessu hlutverki?

(Forseti (LínS): Forseti vill ítreka við hv. þingmenn að virða ræðutíma.)