154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:42]
Horfa

Elín Íris Fanndal (Flf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er rétt að verkefni Orkustofnunar eru mjög mikilvæg fyrir okkar litla og fallega samfélag. Það er áhugavert að þingmaðurinn nefnir þessi fyrirhuguðu sameiningaráform því að það mun ekki efla stofnunina ef hún er sameinuð annarri án þess að sá fjöldi starfsmanna sem sinnir verkefnum á tilteknu sviði breytist. Ég hef, eins og hv. þingmaður nefnir, mikinn áhuga á framtíð Þorlákshafnar og það er afar mikilvægt að vel sé farið yfir þau mál. Það var í fréttunum núna að Vestmannaeyjabær er búinn að mótmæla fyrirhugaðri efnisvinnslu af hafsbotni við Landeyjahöfn. Það er óttast um áhrif þess á mjög mikilvæg hrygningarsvæði. Varðandi vatnsbúskapinn í Ölfusi þá er fullyrt að það eigi að duga fyrir þetta og þá verður maður væntanlega að taka því sem gildu þangað til annað kemur í ljós. En ég deili áhyggjum hv. þingmanns af akkúrat þessu, af því að vatnið er náttúrlega ekki endalaus uppspretta og sérstaklega ekki þarna.