154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir þessa spurningu, ég náði ekki alveg að fara yfir hana í ræðunni hjá mér. Sko, þetta er ekki að byrja bara í dag, það eru komin nokkur ár síðan að við gátum farið að horfa framan í þennan veruleika. Á þeim tímapunkti hefði ég alla vega haldið að stjórnvöld myndu fara að draga upp nokkrar mögulegar sviðsmyndir og þetta væri m.a. ein af þeim sviðsmyndum sem er að raungerast og jafnvel aðrar verri. Þess vegna voru t.d. varnargarðarnir byggðir o.s.frv. þó að það væri uppi á ákveðna von og óvon.

Núna í þessu frumvarpi til fjáraukalaga erum við að horfa fram á að það er verið að reyna að halda í ákveðna atvinnustarfsemi í Grindavík. Hinn augljósi valkosturinn við það er: Hvernig væri staðan ef við myndum einfaldlega færa hana? Það er greining sem þarf að gera óháð því hvort það verði síðan valkosturinn sem verður fyrir valinu. Það að henda henni einhvern veginn út af borðinu án þess að skoða þann valmöguleika er óábyrgt að mínu mati, af því að það gefur okkur samanburð til að meta þessa tillögu. Þá erum við ekki að meta þessa tillögu sem kemur fram hérna í einhverju tómarúmi. Þá erum við að meta hana í samanburði við það hvað það þýðir að færa fiskvinnsluna og ýmislegt annað eitthvert annað, byggja í Sandgerði eða eitthvað svoleiðis, hver veit? Og á þeim forsendum er miklu auðveldara að taka ákvörðun um þá annaðhvort þennan kost eða einhvern annan kost.