154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[18:17]
Horfa

Guðbrandur Einarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, vissulega hefði verið gott ef fyrir hefðu legið einhverjar sviðsmyndir sem hægt hefði verið að vinna eftir. En ég vil bara árétta að við erum núna að samþykkja greiðslu um byggingu varnargarða upp á 4,5 milljarða, framkvæmdir sem nú þegar hafa átt sér stað. Það var búið að taka ákvörðun um að ráðast í það og við erum að samþykkja fjárveitingu eftir á.

Ég sat í stjórn HS Veitna á tímabili og þá var verið að velta fyrir sér: Eigum við að leggja aðra línu í staðinn fyrir að hafa bara Njarðvíkuræðina? Á hún bara að vera ein eða eigum við að byggja aðra? Þá stöndum við auðvitað frammi fyrir tvöföldum kostnaði. Og það er það sem maður þarf oft að velta fyrir sér: Erum við tilbúin til að tryggja allt með tilheyrandi kostnaði sem lendir þá bara á fólki? Það sem ég er að reyna að ná utan um núna er: Við erum núna í einhverjum björgunaraðgerðum, styðjandi við ákveðna hópa, en við erum enn þá með hópa uppi í Grindavík sem hafa ekki fengið neina úrlausn sinna mála. Ég held að sú sviðsmynd sem ríkisstjórnin teiknaði upp hafi verið þannig að það átti aldrei að koma til móts við þá. Ég er þess vegna að velta fyrir mér: Núna hefðum við átt að teikna á blað að aðgerðir í Grindavík kostuðu 150 milljarða, það væri bara kostnaðurinn við að gera það sem þarf að gera við Grindavík. Reyndar fer ekkert allt í inn á ársreikninginn eða inn á rekstrarreikninginn, við erum að kaupa húsnæði sem fer bara inn á efnahagsreikninginn og verður (Forseti hringir.) þar í einhvern tíma. En hefðum við átt að búa til sviðsmynd þar sem það yrði ekki um neinn skaða að ræða hjá Grindvíkingum?