154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[20:48]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Vissulega er enginn öfundsverður af því að vera í ríkisstjórn og þurfa að takast á við þessa hluti en það er þó huggun harmi gegn að allt þingið er samstiga í því að gera það sem þarf að gera. Hér erum við frekar að takast á og rökræða í rauninni með hvaða hætti á að borga það sem er verið að gera þannig að það falli jafnt á almenning og leiði ekki til áframhaldandi óstöðugleika í efnahagslífinu sem mun bitna þyngst á skuldsettu fólki og þá ekki síst ungu. Ég verð að segja eins og er að núverandi hæstv. fjármálaráðherra minnir mig óþægilega á sjálfan mig fyrir 42 árum þegar ég byrjaði að fara í Sjallann og eignaðist mitt fyrsta ávísanahefti. Ég skeytti kannski ekkert endilega mikið um að draga frá í heftinu og leggja saman og það var ekki fyrr en nokkrum vikum síðar þegar gulu miðarnir fóru að hrannast upp og ég áttaði mig á því að ég átti ekki fyrir þessu að maður breytti einhvern veginn aðeins um hegðun. Ég held að við þurfum bara að taka það alvarlega að ræða með hvaða hætti við ætlum að fjármagna þetta einmitt til þess að þjóðhagsleg áhrif verði lágmörkuð og þetta falli sem jafnast og sanngjarnast á alla þjóðina. Þess vegna langar mig að spyrja hv. þingmann: Hvað er það að hans mati sem veldur því að þetta er ekki gert, vegna þess að varla eru ráðherrarnir svona skyni skroppnir að átta sig ekki á því að það þarf að afla tekna fyrir útgjöldunum? Er það A: Það að þeir séu hreinlega svona illa inni í efnahagsmálum? Eða B: Getur verið að það sé vegna þess að stjórnarflokkarnir eru einfaldlega ósammála um leið að fjármögnun, sem kemur kannski ekki á óvart miðað við mörg önnur mál sem rekið hafa á fjörur okkar hérna?