154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

fjáraukalög 2024.

1146. mál
[21:04]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Andrési Inga Jónssyni fyrir þetta innlegg. Já, þegar ég var að tala um spádómsgáfuna og miðilsgáfuna var ég kannski að beina sjónum mínum að jarðhræringum og eldgosunum sem slíkum og hvernig þau birtast okkur. En þetta sem hv. þingmaður nefnir er bara kjarni máls. Eins og ég hef nefnt áður fengum við í þingflokki Viðreisnar margt af þessu fólki til okkar til að fara yfir stöðuna fyrir allnokkru síðan og þá var einmitt verið að nefna þetta; fólk búið að byggja upp rekstur, leggja hjarta og sál í rekstur og sá rekstur er fastur á stað þar sem ekki eru viðskiptavinir og alger óvissa um það hversu margir viðskiptavinir verða þar til staðar næstu árin og í fyllingu tímans. Það er því ekkert ósanngjarnt eða óeðlilegt eða skrýtið að reyna að mæta því ef fólk vill reyna fyrir sér annars staðar. Þetta er bara hópur sem þarf að taka utan um. Við sjáum það auðvitað í umsögnum eins og hv. þingmaður er að vísa í og við sjáum þetta líka í fjölmiðlaviðtölum og öðru, að fólk vill fá einhver svör. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju er verið að vinna þetta svona. Mögulega er undir niðri einhver von um að ástandið lagist og allir fari aftur til baka og að hlutirnir gangi fyrir sig rétt eins og var áður en byrjaði að gjósa. Ég átta mig ekki á því. En það er einmitt alltaf verið að gera þetta í einhverjum tímabilum í staðinn fyrir að gefa fólki endanleg svör. Það er auðvitað bara málið að fólk er fast þarna með allt sitt, veit ekkert um framtíðina og mér finnst að það eigi að vera þannig að ef fólk vill losa sig út þá eigi að veita fólki stuðning til að gera það. Það verður svo bara ráðast hvort fólk vilji snúa til baka, hvort heldur sem er til búsetu eða jafnvel með fyrirtækin sín aftur til Grindavíkur.