154. löggjafarþing — 119. fundur,  10. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[23:41]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Ég sé að ég og hv. þingmaður erum bara á nokkuð svipuðu máli hvað varðar leyfisveitingaferlið sem á sér stað. Ég sá að hæstv. ráðherra var að biðja um hugmyndir inni á samráðsgátt um skilvirkara leyfisveitingaferli, hvað sem það nú er. En hins vegar snerti hv. þingmaður bara á rosalega mikilvægum punkti hvað varðar önnur leyfisveitingaferli sem t.d. önnur mannvirki sæta. En eins og hv. þingmaður kom inn á þá eru þetta aðskilin leyfi með aðskilin kerfi. Ef t.d. eitt leyfi sætir kæru og það er ógilt þá gæti það leitt til ógildingar annars leyfis, eins og við sáum í máli Hvammsvirkjunar þar sem það byrjaði á því að virkjunarleyfið var ógilt og það skapaði grundvöll fyrir ógildingu framkvæmdaleyfisins. Þannig að eftir stendur Hvammsvirkjun núna, sem er vissulega í nýtingarflokki, bæði framkvæmdaleyfislaus og virkjunarleyfislaus, sem tók alveg sinn tíma að fá í gegn til að byrja með. Því langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort hann teldi að vandamálið sem blasir við núna — við erum búin að vera að ræða um raforkuöryggi í þessum þingsal. Við ræddum um það, m.a. í síðustu viku. Það er mikið tala um orkuskort hér og mig langaði bara að athuga hvort hv. þingmaður teldi að þessi orkuskortur, sem er oft talað um, sé vegna tafa í leyfisveitingaferlinu eða hvort hann sé út af því að rammaáætlun sé mögulega ekki besta tækið til að koma á fót nýjum virkjunum í nýtingarflokki.