154. löggjafarþing — 119. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[00:06]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir mjög svo áhugaverða yfirferð um þetta mál og umgjörðina utan um þetta allt saman hjá okkur. Það var skemmtilegt að hlusta á þetta. Mig langar ekki endilega fara beint í efnisatriði þessa máls sem við erum að ræða heldur kannski að taka þetta aðeins út frá annarri mynd. Hv. þingmaður kom svolítið inn á það að við erum með rammaáætlun, svo erum við með flókið leyfisveitingaferli. Við erum endalaust að ræða hér um orkuskort. Við erum með umræðu um að ferlið okkar á málum sé ofsalega flókið. Eitt af því sem hefur verið rætt mikið um í tengslum við öll þessi mál er hvort umgjörðin okkar sé of snúin þegar við erum á annað borð búin að ákveða að einhver virkjunarkostur megi vera í nýtingu, hversu langt það getur verið í að hann sé tilbúinn til að fara að fullu í framkvæmd og síðan í orkuöflun í framhaldi á því. Mig langar að spyrja hv. þingmann um það svona heilt yfir hvað henni finnst um þetta kerfi sem við höfum búið til og erum búin að vera með í gangi núna í talsvert langan tíma, hvernig henni hefur fundist þetta reynast fyrir okkur sem samfélag. Það eru margir sem tala um að þetta fyrirkomulag með rammaáætlun og allt sem henni fylgir sé gengið sér til húðar. Þetta virki ekki og að við þurfum að finna einhverjar nýjar leiðir. Það væri áhugavert að heyra hver skoðun þingmannsins er á því.