154. löggjafarþing — 120. fundur,  11. júní 2024.

breytingar á ýmsum lögum vegna eftirlits og leyfisveitinga Orkustofnunar.

898. mál
[16:18]
Horfa

Lenya Rún Taha Karim (P) (andsvar):

Frú forseti. Mig langar að þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða spurningu og gaman að segja frá því að þetta var rannsóknarspurningin mín í meistararitgerð minni: Upp að hvaða marki þarf náttúran að gjalda fyrir raforkuþörf almennings? Þar fer ég bara í kosti og galla við það að náttúran þurfi að gjalda fyrir aukna raforkuframleiðslu. Til að svara spurningu hv. þingmanns um hvar mörkin liggja, hvenær réttlætanlegt er að raska náttúrunni til að mæta þörfum almennings fyrir raforku, t.d. vegna sjálfbærnisjónarmiða, þá er staðan nefnilega sú, virðulegi forseti, að 99,9% af íslenskri raforku, sem var framleidd árið 2022, var framleidd út frá endurnýjanlegum orkugjöfum þannig að það er ekki lengur málið að framleiða meiri raforku til að framleiða hana út frá endurnýjanlegum orkugjöfum. Öll okkar raforka er framleidd með endurnýjanlegum orkugjöfum. Þá er sú réttlæting bara slegin út af borðinu. Við getum ekki réttlætt þessa röskun á náttúrunni með vísan til þess að við séum að framleiða meiri sjálfbæra orku. Hins vegar gæti slíkt inngrip og slík röskun verið réttlætt á grundvelli þess að ef þessari náttúru er ekki raskað til að koma upp einhverri tiltekinni framkvæmd, sem stuðlar að því að framleiða meiri raforku, þá er veruleg hætta á því að raforkuöryggi almennings og mikilvægra innviða sé stefnt í mikla hættu. Þetta þurfa stjórnvöld að sýna fram á með mjög haldbærum gögnum og það mun örugglega þurfa að láta reyna á þetta fyrir dómi og alls konar. En alla vega miðað við mína rannsókn þá er það þar sem mörkin liggja, þ.e. ef brýnar ástæður og sérstakar aðstæður leiða til þess að þörf er á tiltekinni framkvæmd.