154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[12:08]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Það er ákveðin depurð í mér í dag eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. dómsmálaráðherra hér í þingsal í gær sem er að mínu mati ein sú hryggilegasta ræða sem hefur verið flutt í þessum stóli þar sem talað er mjög afmennskandi um fólk á flótta og því líkt við vatn sem reynir að leita í gegnum glufur og annað. Ég er pínu hrygg í þessari umræðu í dag.

Mig langar til þess að spyrja hv. þingmann um þær breytingar sem verið að leggja til með þessu frumvarpi. Það er verið að taka upp reglur sem hafa verið teknar upp í öðrum ríkjum, ekki öllum ríkjum sem við berum okkur saman við enda eru þau alls ekki samræmd eins og fram hefur komið, og þær hafa reynst illa. Takmarkanir á fjölskyldusameiningu hafa reynst illa. Ég er ekki að tala um bara fyrir fólkið, fyrir umsækjendur sjálfa, ég er að tala um fyrir samfélagið, fyrir regluverkið okkar, fyrir kerfin okkar. Að stytta dvalarleyfistíma þyngir málsmeðferð, þyngir í rauninni kerfið vegna þess að það þarf að afgreiða fleiri umsóknir. (Forseti hringir.) Allar þessar breytingar torvelda fólki að verða hluti af samfélaginu, (Forseti hringir.) koma í veg fyrir inngildingu, þær hafa reynst illa. Mig langar að spyrja hv. þingmann: (Forseti hringir.) Hvers vegna eruð þið að leggja til að við tökum upp reglur sem hafa reynst illa (Forseti hringir.) í nágrannalöndunum?

(Forseti (ÁsF): Ég minni þingmanninn á að hann tók allt of langan tíma í þessa ræðu, hafði til þess eina mínútu.)