154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[12:29]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P):

Forseti. Við erum hér að ræða enn eitt skrefið í þeirri hryggilegu vegferð sem ríkisstjórnin er á í þá átt að svipta fólk á flótta réttindum og afmennska það. Ég vísaði til þess í andsvari mínu hér áðan við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur og ætla aftur að gera það að umtalsefni mínu hversu mikil vonbrigði ég tel ræðu dómsmálaráðherra vera sem hún flutti í þeim hátíðlegu umræðum sem eldhúsdagsumræðurnar eru hér á þinginu í gær. Í staðinn fyrir að ræða framtíðarsýn fyrir land og þjóð varði ráðherrann öllum sínum tíma í að tala um það að við þyrftum með öllum ráðum að koma í veg fyrir að hingað leiti of mikið af útlendingum. Orðræðan sem kom fram í máli dómsmálaráðherra er afmennskandi þar sem fólki, sem er bara fólk eins og við öll hér inni, einstaklingar af holdi og blóði með sínar vonir og drauma og þrár, var líkt við vatn sem leitaði í allar glufur og það þyrfti að loka þessum glufum. Þetta þykir mér hryggilegt.

Þetta frumvarp sem við erum að ræða hér er annar liður í þeirri vegferð sem ríkisstjórnin er á vegna þess að tilgangur þessa frumvarps er ekki sá að minnka ríkisútgjöld í það kerfi sem sér um afgreiðslu hælisumsókna. Tilgangurinn er ekki að samræma löggjöf okkar við það sem vel hefur gefist í öðrum ríkjum og sannarlega ekki að gera löggjöfina skýrari eða skilvirkari, hvorki fyrir kerfið sjálft og þær stofnanir sem löggjöfinni framfylgja né þá einstaklinga sem þurfa að treysta á þjónustu þeirra. Tilgangur þessara laga er að fæla fólk frá. Tilgangur þessara breytinga er að sýna fólki úti í heimi að við getum verið vond við útlendinga. Það er tilgangurinn. Það er ekki einu sinni farið neitt sérstaklega leynt með þetta. Framan af, og reyndar enn, er svo sem reynt og stundum er því haldið fram að þetta snúist um að auka skilvirkni og annað. Það hefur hins vegar að mínu mati komið nægilega upp á borðið að megintilgangurinn er fælingarmáttur.

Mér þykir mjög hryggilegt að sjá fimm kvenkyns þingmenn skrifa undir nefndarálit þar sem færð eru rök fyrir því að börn á flótta hafi ekki jafn mikil réttindi og mörg önnur börn og þess vegna getum við verið vond við þau með því að svipta þau vernd og stuðningi foreldra sinna: Ég á þetta, ég má þetta. Hér áður fyrr þegar við vorum að ræða önnur mál upplifði ég það að flestir hv. þingmenn veigruðu sér við að skerða réttindi barna. Það var reynt að gera undantekningar þegar um börn var að ræða og það virtist hreyfa við öllum þegar gengið var á þeirra rétt eða hagsmuni. Þetta er liðin tíð. Það virðist ekki hreyfa jafn mikið við fólki og það gerði áður. Þetta er vitanlega mjög hryggileg þróun fyrir okkar menningu, fyrir okkar samfélag, fyrir okkar löggjöf og stjórnskipan. Eins og ég hef svo sem áður sagt hér í pontunni þá hélt ég einu sinni að mannkynið væri á leiðinni áfram, við værum að þróast fram á við sem skyni gæddar verur í okkar siðferði og samfélagi, en það er ekki svo langt síðan ég áttaði mig á því að við förum ekki áfram heldur förum við í hringi. Meiri hlutinn hér á hinu háa Alþingi er sannarlega að leggja sitt á vogarskálarnar til þess að við tökum nokkuð krappa beygju aftur á bak í þetta skiptið en ég bind vonir við að það muni lagast með tíð og tíma, að við munum aftur komast hinum megin í hringinn, að við höldum áfram, kannski hægt og rólega. Ég vona að þessi hringekja okkar fari hægt og rólega upp á við en það er alla vega alveg á tæru að við erum ekki á uppleið eins og staðan er. Það er auðvitað þróun sem er að eiga sér stað víðar en hér. Ég er á þeirri skoðun að við sem lítið samfélag sem hefur þá ímynd út á við að vera upptekið af mannréttindum og jöfnum réttindum, jöfnum tækifærum og öðru, gætum alveg sleppt því að taka þátt í þeirri þróun en hér hefur verið ákveðið að vera með í því að taka skref aftur á bak og það er miður.

Ég stend hér til að gera grein fyrir nefndaráliti minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar í fjarveru hv. þm. Halldóru Mogensen. Vitanlega er eitt helsta umfjöllunarefni nefndarálitsins hagsmunir barna og það hvernig þessi lög, þessi breyting mun hafa áhrif á hagsmuni barna. Ástæðan fyrir því að nefndarálitið fjallar fyrst og fremst um það er sú að í áframhaldandi meðferð allsherjar- og menntamálanefndar á málinu þá barst, eins og komið hefur fram, ítarlegri umsögn frá umboðsmanni barna sem gagnrýndi harkalega breytingar sem lúta að því að gera börnum á flótta erfiðara fyrir að sameinast foreldrum sínum sem eru búsettir á Íslandi.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir sneri út úr þessu hér rétt áðan í andsvari sínu, ég man ekki við hvern, og sagði að við gætum ekki verið að taka á móti öllum börnum og að barnasáttmálinn þýddi ekkert það að öll börn ættu rétt á dvalarleyfi á Íslandi. Þetta er auðvitað útúrsnúningur því að það er ekkert verið að ræða það heldur er verið að tala um að börn sem eiga foreldra á Íslandi fái ekki að koma og sameinist foreldrum sínum hér. Ég dáist bara að því, auðvitað á mjög neikvæðan hátt, það kemur mér á óvart hversu mikill metnaður er lagður í að rökstyðja það lögfræðilega að það sé heimilt að koma í veg fyrir að börn sem eru jafnvel í lífshættu eða búa við skelfilegar aðstæður, t.d. á Gaza, geti sameinast foreldri sínu hér á landi. Og aftur þá stuðaði það mig sérstaklega að sjá fimm konur skrifa undir nefndarálit meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar.

Ég hef gríðarlega mikla reynslu af þessum málaflokki. Ég hef unnið með fólki á flótta í um 15 ár og framan af í minni vinnu var mjög hátt hlutfall fólks sem leitaði til Evrópu karlar sem voru einir á ferð. Það er enn hátt hlutfall en hlutfall barna og kvenna sem fóru lífshættulegar og jafnvel banvænar leiðir til að komast í skjól hækkaði mjög mikið þegar Evrópuríki fóru að setja reglur á borð við þær sem við erum að setja hér, að takmarka heimildir til fjölskyldusameiningar, vegna þess að kerfið í Evrópu er þannig að ef þú ert flóttamaður og kemur hingað þá áttu rétt á vernd en þú mátt ekki koma hingað. Þannig er kerfið uppbyggt. Þess vegna fer fólk í ónýta gúmmíbáta yfir Miðjarðarhafið til að reyna að komast hingað með því sem fólki finnst ánægjulegt að kalla ólöglegum hætti, vegna þess að það er engin lögleg leið. Ein lögleg leið til að komast í skjól eru fjölskyldusameiningar. Það sem fólk hefur gjarnan gripið til í þessum aðstæðum þar sem það þarf að selja ofan af sér húsið til að fá einn farmiða í skjól, er að greiða skipulögðum glæpasamtökum fyrir aðstoðina við að komast til Evrópu. Þegar við höfum annars vegar bara efni á einum farmiða, af því að við eigum bara eitt hús og miðinn kostar húsið, og þetta er hins vegar lífshættulegt ferðalag þar sem við þurfum að leggja líf okkar og öryggi í hendurnar á glæpamönnum, þá held ég að það gefi augaleið hvaða fjölskyldumeðlimur er líklegastur til þess að taka að sér það ferðalag. Það er gjarnan elsti karlmaðurinn í fjölskyldunni, fjölskyldufaðirinn. Síðan þegar hann kemst á leiðarenda þá var Evrópa nú með þá mannúðlegu löggjöf að hægt var að sækja konur og börn með löglegum hætti. Það var lögleg leið fyrir flóttafólk til að komast til Evrópu.

Það eru sömu þingmenn sem halda því fram að þau vilji fjölga löglegum leiðum fyrir flóttafólk að koma til Evrópu og styðja þetta frumvarp, sem fækkar löglegum leiðum fyrir flóttafólk til að koma til Evrópu, og ekki bara fyrir flóttafólk heldur börn. Það fækkar löglegum leiðum fyrir börn til að komast í skjól úr lífshættulegum aðstæðum. Það er með öllu óskiljanlegt að við séum hreinlega að ræða þetta hérna í dag. Og hver tilgangurinn? Jú, að sýna hvað við getum verið vond svo fólk hætti að koma af því að við ráðum ekki við þann fjölda, sem er þó minni en fjöldi þeirra barna sem fæðist hér á landi og þeir Evrópubúar sem flytja til landsins og annað. Auðvitað vitum við vel að þegar vel er að gáð þá snýst þetta ekkert um fjöldann.

Í nefndaráliti 1. minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar er sem fyrr segir fyrst og fremst fjallað um afleiðingar frumvarpsins á öryggi barna á flótta, inngildingu og andlega heilsu, því að eins og ég sagði er fjölskyldusameining ein af fáum löglegum og öruggum leiðum fyrir fjölskyldur til að flýja úr hættulegum aðstæðum og koma börnum í öruggt skjól. 1. minni hluti allsherjar- og menntamálanefndar, hv. þm. Halldóra Mogensen, telur mjög mikilvægt að varðveita rétt fólks á flótta til fjölskyldusameiningar eins og best verður á kosið. Það er algengast að karlmenn ferðist einir í þeirri von að þegar þeir komast loks í skjól geti þeir sótt um fjölskyldusameiningu og tryggt þannig örugga leið fyrir konu sína og börn til að komast einnig í skjól. Með því að þrengja rétt fólks til fjölskyldusameiningar er verið að neyða konur og börn til að setja líf sitt og heilsu í hendur smyglara og skipulagðra glæpasamtaka. Þannig aukum við á áföll, dauðsföll varnarlausra barna. Við verðum að hafa í huga að það að fjarlægja öruggar leiðir fyrir fólk á flótta til að komast í skjól stoppar fólk ekki frá því að koma, enda er fólk að flýja aðstæður sem það telur sig ekki geta lifað af. Að fjarlægja öruggar leiðir hefur einungis þau áhrif að neyða fólk til að setja börn sín í ótryggar og hættulegar aðstæður.

Samkvæmt tölfræði Alþjóðlegu fólksflutningastofnunarinnar hurfu eða létust 3.153 flóttabörn í leit að öryggi og vernd á árunum 2014–2023. Eftir því sem vestræn ríki halda áfram að torvelda fjölskyldusameiningar fólks á flótta má gera ráð fyrir að þessi tala hækki til muna — til hamingju, hv. þingmenn. Ríkisstjórnin hefur ítrekað talað fyrir mikilvægi þess að samræma íslensk útlendingalög sambærilegum lögum annarra Norðurlanda, þá sérstaklega Danmerkur — því skyldi hún nú hafa verið valin? Ekki hefur þó verið tekið mið af því hvernig löggjöfin hefur reynst í þeim löndum. Dönsk rannsókn á áhrifum tímabundinna leyfa á andlega heilsu ungs fólks, sem birt var í mars 2024, sýnir að vegna styttri gildistíma leyfanna skapast óöryggi hjá ungu fólki um framtíðarhorfur sínar, ótti við brottvísun eykst, erfiðleikar við að skipuleggja menntun og fylgja draumum sínum verða meira íþyngjandi og áhyggjur af gildistímanum trufla hversdagslíf þeirra. Óvissan, biðtíminn og takmörkuð réttindi þeirra setja ungt fólk í frekari hættu á að upplifa áfallastreitu, þunglyndi og kvíða. Fyrir börn og ungmenni eru tímabundin dvalarleyfi uppsprettan að óvissu um framtíðina sem gerir þeim mun erfiðara fyrir að skipuleggja líf sitt í landinu. Þetta hefur bæði neikvæð áhrif á hvata fullorðinna og barna til inngildingar og þetta hefur neikvæð áhrif á námsárangur.

Ríkisstjórnin segist hafa inngildingu að höfuðmarkmiði í þessum málaflokki en langtímarannsókn á feðrum á flótta í Danmörku, sem spannar 24 ára tímabil, sýnir að áhrif á geðheilsu þeirra eru töluvert alvarleg þegar þau eru skoðuð í samhengi við lögbundinn biðtíma eftir fjölskyldusameiningu. Slæm geðheilsa hefur sem fyrr segir mjög neikvæð áhrif á inngildingu fólks. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að feður á flótta sem bíða eftir maka sínum og börnum eru í aukinni hættu á að glíma við geðræna kvilla og þau lönd sem taka á móti flóttafólki verða að vera meðvituð um að tafir og hindranir á fjölskyldusameiningu geta leitt til mjög skaðlegra áhrifa á geðheilsu þeirra sem í hlut eiga. Enn fremur kemur fram í niðurstöðum rannsóknarinnar að slæm geðheilsa foreldris flóttabarns geti leitt til minni atvinnuþátttöku og fjárhagserfiðleika, en það geti einnig haft neikvæð áhrif á námsárangur flóttabarnanna sjálfra sem og geðheilsu þeirra.

Fyrsti minni hluti telur augljóst að þetta hefur neikvæð áhrif á inngildingu. Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir svaraði þeirri spurningu minni hér áðan um hvers vegna hún væri á því að við ættum að vera að innleiða reglur sem hafa gefist illa þannig að hún væri einfaldlega ósammála því. En það er ekkert til að vera ósammála um. Það er búið að kanna þetta. Það er búið að rannsaka þetta ítrekað og reynslan er slæm af öllum þeim breytingum sem er verið að leggja til í þessu frumvarpi sem lúta að því annars vegar að stytta gildistíma dvalarleyfa, og til hvers? Til hvers í ósköpunum? Það er ekki að fara að koma í veg fyrir að fólk komi hingað, flýi hingað, það er bara ekkert að fara að gera það. Það er að fara að auka álag á Útlendingastofnun, tvöfalda álagið líklega vegna þess að það er verið að helminga gildistíma ákveðinna tegunda. Augljóslega eykur það álag á stofnunina að þurfa oftar að afgreiða endurnýjun um umsókn. Ég er ekki með tölur yfir það en það er í langflestum tilvikum fallist á endurnýjun umsóknar. Hvers vegna erum við að gera þetta? Einu rökin sem hafa komið hérna fram eru að það eigi að samræma þetta eða færa nær löggjöfinni eins og hún er í öðrum löndum. En hún er ekkert eins í öðrum löndum, þeirra á milli. Það hvort dvalarleyfið er tvö eða þrjú ár er ekki það sem ræður úrslitum um það hvort einstaklingur leitar til Íslands eða Danmerkur eða Svíþjóðar eða Noregs eða Þýskalands eða Belgíu.

Rauði krossinn stóð fyrir rannsókn árið 2019 sem fjallar um afleiðingar fjölskylduaðskilnaðar. Í rannsókninni er gerð tilviksrannsókn m.a. í Svíþjóð í kjölfar þess að tímabundin lög voru sett þar í landi. Sænska þingið samþykkti bráðabirgðalög árið 2015 um tímabundið dvalarleyfi, takmarkanir og hert skilyrði fyrir fjölskyldusameiningum með það að markmiði að fækka flóttafólki þar í landi. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að takmarkanir á fjölskyldusameiningum hafa haft neikvæðar afleiðingar, bæði fyrir fjölskyldumeðlimi í Svíþjóð sem og fjölskyldumeðlimi í heimaríki eða þriðja landi. Langur aðskilnaður og skortur á stuðningi til fjölskyldna meðan á biðtíma stendur hindrar bata og skerðir geðheilsu þeirra.

Sú stefna að reyna að takmarka fólksflutninga með því að fækka löglegum leiðum ýtir flóttafólki út í erfiðar aðstæður þar sem það tekur aukna áhættu á leið sinni til öruggra ríkja og aðgengi þess að stuðningi og vernd minnkar í kjölfarið. Það er mat 1. minni hluta að það sé varhugavert að fylgja öðru ríki í þeim eina tilgangi að samræma löggjöf algerlega óháð reynslu af löggjöfinni, áhrifum á inngildingu, farsæld samfélagsins og hagsmuni þeirra sem í hlut eiga, einkum barna. 1. minni hluti telur að með frumvarpinu verði ýtt undir óstöðugleika og andlega erfiðleika fólks á flótta í þeim tilgangi að letja það til þess að sækja um skjól. Við stýrum því ekki hvort fólk leiti hingað, reyni að komast hingað eða ekki. Við stjórnum því hins vegar hvernig við komum fram við fólkið sem hingað nær þrátt fyrir gríðarlegar hindranir. Afleiðingar þess að brjóta fólk niður sem þegar glímir við djúp áföll í stað þess að hlúa að því eru neikvæðar og það hefur áhrif á öryggi og velferð samfélagsins alls. Við erum ekki bara að tala um mannúð og hagsmuni einstaklinganna sem neyðast til að flýja heimaríki sitt og leita til Íslands heldur erum við að tala um hagsmuni íslensku þjóðarinnar. Það er verið að ógna þeim með þessu frumvarpi og þessari vegferð sem ríkisstjórnin er á, að sýna útlendingum hvað við getum verið vond og að við séum engir miskunnsamir samverjar fyrir eitthvert fólk í neyð. Það getur bara farið eitthvert annað.

Allsherjar- og menntamálanefnd barst umsögn frá umboðsmanni barna þar sem embættið gagnrýnir einstakar greinar frumvarpsins og telur þær stangast á við réttindi barna sem tryggð eru með barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem Alþingi lögfesti 20. febrúar 2013. Þess má geta að Danmörk hefur ekki lögfest barnasáttmálann, ríki sem við ætlum að apa eftir. Við erum á þeirri vegferð að sársaukamörkin okkar þegar kemur að því að koma illa fram við fólk eru sífellt að hækka og nú eru börn komin undir þá slá.

Þau atriði sem umboðsmaður barna gerðir nánari athugasemdir við eru aðför að rétti barna til fjölskyldulífs og umönnunar foreldra, verulega þröng undanþága frá lögbundnum biðtíma til fjölskyldusameiningar sem undanskilur stóran hóp barna og foreldra og að mat á hagsmunum barna hafi ekki farið fram við gerð frumvarpsins. Þessari umsögn umboðsmanns barna svarar meiri hlutinn með einhverjum lögfræðilegum loftfimleikum til þess að réttlæta það að börnum sé haldið frá foreldrum sínum. Vísað er í umræður sem fóru fram þegar verið var að samþykkja barnasáttmálann þar sem kemur fram að það sé ekki ætlunin með þessum sáttmála að hafa áhrif á rétt ríkja til að stjórna sinni innflytjendalöggjöf. Ég ætla að orða þetta á mannamáli. Þetta þýðir: Barnasáttmálinn gildir ekki um útlensk börn. Það er auðvitað ekki þannig sem alþjóðalög virka og mannréttindi yfir höfuð, þau eiga vitanlega að gildi um alla. En í ofanálag skulum við aðeins horfa á hvers vegna við samþykktum barnasáttmálann. Hvers vegna gerðum við það? Jú, vegna þess að við berum hag barna fyrir brjósti. Við erum sammála því að hagsmunir barna eigi að ráða för þegar ákvarðanir eru teknar sem þau varða. Þess vegna samþykktum við þetta. Þar að baki liggur t.d. sú staðreynd að börn þurfa á umönnun foreldra sinna að halda. Þess vegna var settur í samninginn réttur barna til fjölskyldulífs og umönnunar foreldra. Það var ekki bara gripið úr lausu lofti. Það er auðvitað átakanlegt að það skuli vera farið í miklar málalengingar til þess að halda því fram að við megum setja svona reglur þegar það gefur augaleið að þetta eru slæmar reglur. Þetta er slæmt. Þetta er ekki í samræmi við hagsmuni barna. Það getur ekki nokkur manneskja haldið því fram.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir talaði um það hérna áðan að inngilding og fjölskyldusameining fólks gangi betur þegar það er búið að koma undir sig fótunum í landinu. Þetta er rétt en það er ekki að mínu mati með neinum hætti ásættanlegur rökstuðningur fyrir þessum reglum. Það sem við eigum að gera til þess að stuðla að inngildingu fólks er að aðstoða það, styðja það, bjóða það velkomið í samfélagið, gera því grein fyrir að það sé velkomið hér á meðan það þarf á því að halda og á meðan það vill dvelja í okkar góða landi, styðja það við að læra tungumálið, styðja það við að finna atvinnutækifæri, aðstoða það við að koma undir sig fótunum. Ekki með því að skipa þeim að gera það, skylda þau til að inngildast, fyrir utan það að þessi ríkisstjórn virðist hafa misskilið hugtakið inngildingu. Inngilding er annað en aðlögun. Áður var notað orðið aðlögun, sem á ensku er, með leyfi forseta, „integration“, en í dag þykir eðlilegra að stefna að inngildingu útlendinga, sem er þýðing á enska orðinu, með leyfi forseta, „inclusion“. Inngilding snýst um það að aðlögun að samfélaginu þurfi að vera gagnkvæm. Inngilding snýst um að einstaklingurinn er boðinn velkominn í samfélagið, hann er tekinn inn í samfélagið og við réttum út höndina til fólks og tökum þátt þeirra vegferð í samfélagi okkar. Aðlögun gerir kröfu til einstaklinga um að aðlagast samfélaginu án í rauninni þátttöku samfélagsins eða skyldna þess, en inngilding leggur skyldur á herðar samfélagsins um að taka þátt í því ferli. Það sem er verið að gera hér snýst ekkert um inngildingu. Það snýst um aðlögun. Það er verið að krefjast þess að fólk aðlagist samfélaginu áður en það fær að njóta réttinda sinna. Þetta er afturför. Þetta er afturför ekki bara af mannúðarástæðum og fyrir mannúð og það hvernig við komum fram við fólk af holdi og blóði, heldur fyrir okkar kerfi, okkar samfélag, okkar löggjöf.

Það er akkúrat það sem við komum að þegar við skoðum þetta frumvarp og sjáum að þetta eru slæmar hugmyndir; þetta er að fara að auka álag á Útlendingastofnun, þetta er líklega að fara að kosta meira, þetta er að fara að koma í veg fyrir inngildingu fólks og koma í veg fyrir aðlögun, ef fólk vill vera þar. Þá vaknar spurningin sem ég hef spurt mig að ítrekað í þessu ferli: Hvers vegna erum við að gera þetta? Af hverju eruð þið að gera þetta? Ég velti því oft fyrir mér hvaðan þetta kemur. Hvað kemur þessi hugmynd? Þetta er alveg fáránleg hugmynd. Eins og ég sagði við hv. þm. Bryndísi Haraldsdóttur áðan getum við alveg tekið mannúðina og haft hana fyrir utan sviga. Við getum bara lagt hana til hliðar og þurfum ekkert að vera að tala um mannúð, en þetta frumvarp er engu að síður gríðarlega heimskulegt. Ef við ætlum að tala um skilvirkni og ábyrga meðferð ríkisfjármuna er þetta ekki leiðin. Þá hugsar maður: Hvaðan kemur þetta? Hver er að leggja þetta til? Mig grunar að þessi lög sem og þau sem voru samþykkt í fyrra — sem voru sínu hræðilegri en þetta frumvarp og svartur blettur á sögu Alþingis, ég ætla bara að leyfa mér að segja það — verði til á post-it miðum í Útlendingastofnun sem síðan fara í einhverjum bunkum af og til til ráðuneytisins sem býr til eitthvert frumvarp úr því án þess að hugsa um eitt eða neitt; hvort hugmyndin sé góð, hvort sú leið hafi gefist vel einhvers staðar eða ekki. Þetta er í öllu falli ákaflega lítið úthugsað.

Og hvers vegna erum við komin þangað? Jú, við erum komin þangað af þeirri ástæðu sem ég nefndi hérna áðan, að mannkynið fer ekki áfram, okkur fer ekki fram í siðferðinu, við förum í hringi og nú erum við komin á leiðarenda í hringnum, erum úti á jaðrinum og erum á leiðinni til baka, erum að stíga skref til baka. Stór þáttur í þeirri afturför, sem gerist reglulega hjá mannkyninu, er afmennskun. Tilteknir hópar gjarnan og það er mismunandi hverjir það eru. Við þekkjum gríðarlega fræg og hræðileg, skelfileg en alls ekki svo fjarlæg dæmi um það í okkar sögu og þetta er að gerast aftur. Þetta er að endurtaka sig. Það er það sem er að baki þessu frumvarpi, eins og kom skýrt fram í ræðu dómsmálaráðherra í pontu Alþingis í gær, það er afmennskun. Það er afmennskunin sem ræður hér för, að fólk sé ekki allt jafn mikið fólk. Ég hef oft verið spurð hvað sé verst við þetta mál og það sem er verst við það er þetta, merkið sem það er um þá vegferð sem við erum á. Breytingarnar í sjálfu sér, það að stytta gildistíma dvalarleyfa — sannarlega voru mun hræðilegri breytingar lagðar til og samþykktar hérna á þinginu í fyrra — skilaboðin sem það sendir að stytta gildistíma dvalarleyfa eru ömurleg. Þau eru neikvæð og þau eru okkur til skammar.

Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna hefur lagt á það áherslu frá stofnun að þrátt fyrir að rétturinn til verndar vegna flótta sé tímabundinn þá þurfi ríki engu að síður að opna fyrir þann möguleika að fólk snúi ekki aftur heim. Hvers vegna? Jú, vegna þess að fólk er fólk. Öll viljum við vera heima hjá okkur en við byggjum upp okkar líf og annað og það að vera í einhverju tímabundnu ástandi til lengri tíma geti verið mjög streituvaldandi. Fólk getur alltaf farið þó að það sé með dvalarleyfi. Það að þú fáir dvalarleyfi í einhverju ríki bindur fætur þína ekki þar, en þetta virðist stundum gleymast. Það að senda fólki þau skilaboð að það sé velkomið hérna í einhvern x tíma, bara rétt á meðan ástandið er sem verst, gerir fólki erfiðara fyrir að jafna sig á þeim áföllum sem það hefur orðið fyrir. Það gerir það ólíklegra til að verða hluti af samfélaginu okkar og jaðarsetur það, sem er ekki síst slæmt fyrir samfélagið okkar.

Eins og ég segi getum við bara lagt mennskuna alveg til hliðar, þó að sannarlega sé þetta mjög afmennskandi vegferð, en þá erum við samt að auka álag á Útlendingastofnun og við erum að auka ríkisútgjöld til þessa málaflokks. Það heyrðist skýrt á máli dómsmálaráðherra hér í gær hvers vegna ríkisstjórnin veldur ekki því grundvallarhlutverki sínu að halda efnahag stöðugum í landinu, byggja upp velferðarkerfið, byggja upp okkar samfélag, þjóna þörfum almennings sem kaus þau til valda, og það er vegna þess að þessi ríkisstjórn er svo blinduð af, hvað eigum við að segja, hvaða orð eigum við að nota, af andúð sinni á fólki á flótta að hún getur ekki einbeitt sér að neinu öðru. Það kom skýrt fram í eldhúsdagsumræðum í gær.

Ég hef auðvitað ekki lokið máli mínu þótt ég sé búin að gera grein (Forseti hringir.) fyrir nefndaráliti 1. minni hluta og óska eftir því við forseta að fá að fara aftur á mælendaskrá.