154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[13:16]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir) (P) (andsvar):

Forseti. Ég er á þeirri skoðun að við eigum að hlusta á sérfræðinga í tilteknum lögum og tilteknum reglum. Umboðsmaður barna hefur það hlutverk fyrst og fremst að tryggja að stjórnvöld og löggjafinn m.a. hagi málum í samræmi við barnasáttmálann. Hv. þingmaður er í rauninni að spyrja út í lagatæknileg atriði, þessi orð sem vísað er til í nefndaráliti meiri hlutans sem koma fram í undirbúningsgögnum að barnasáttmálanum þar sem talað er um að sáttmálinn eigi ekki að skerða rétt þjóða til að ráða sínum útlendingamálum. Auðvitað trompar það ekki barnasáttmálann og ákvæði hans. Eina leiðin til að halda því fram að þessi ákvæði gildi ekki um börn á flótta er segja að samningurinn gildi ekki samkvæmt orðanna hljóðan.

Svo komum við að þessu sem hefur verið nefnt hérna og hv. þm. Gísli Rafn Ólafsson gerði að umtalsefni í andsvari hér áðan, þ.e. ákvæði barnasáttmálans, sem eru líka grundvallaratriði í allri okkar löggjöf, sem er það að hagsmunir barna skuli hafðir að leiðarljósi við töku ákvarðana sem varða börn. Ég held að það geti enginn haldið öðru fram en að þetta frumvarp brjóti gegn hagsmunum barna.