154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[14:17]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Birni Leví Gunnarssyni fyrir andsvarið. Ég sagði það aldrei að það væri neitt þeim að kenna, en við getum ekki stungið hausnum í sandinn. Hann tekur sem dæmi fatlað fólk og ástandið þegar fjármunir eru búnir, sem það hefur lent í ítrekað, fatlað fólk lendir bara í tómu veseni af því að fjármunir eru ekki til. Við sjáum meira að segja að fatlað fólk lendir í hreppaflutningum og er sett út á land vegna þess að það er bara fyrir í sínu eigin umhverfi. Á meðan við erum með þetta ástand í þjóðfélaginu, haldið þið virkilega að einhverjir aðrir fái eitthvað betri þjónustu í þessu kerfi? Aldrei nokkurn tímann. Við erum með brotið kerfi og ég spyr hv. þingmann: Hversu mörgum heldur hann virkilega að við getum tekið við áður en við þurfum að segja stopp? Hvar eigum við að setja mörkin? 1.000? 3.000? 5.000? 10.000? Er það fjöldinn sem við eigum að horfa á eða aðstæðurnar eða hvernig þjóðfélagið getur séð um það? Hvar eiga mörkin liggja? Við hljótum að þurfa einhvern veginn að leggja þetta niður fyrir okkur: Erum við að gera fólki gott? Fólk er að flýja úr einhverjum aðstæðum. Það kemur hingað til Íslands. Það hefur sennilega litla hugmynd um hvað það er að gera. Við getum þess vegna sagt að við vitum ekki sjálf hvernig ástandið er hjá okkur ár fram í tímann. Ástand í málefnum fatlaðs fólks og annars fer versnandi og ég get ekki ímyndað mér að aðstæður þessa fólks muni fara batnandi þvert á það.