154. löggjafarþing — 122. fundur,  13. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[15:00]
Horfa

Eyjólfur Ármannsson (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Málið er að Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki litið stoltur til baka yfir baráttu sína fyrir almennilegri löggjöf um málefni hælisleitenda. Það er alveg klárt í mínum huga. Ég tel að þetta frumvarp sem kennt er við hv. þingmann hafi verið útvatnað, m.a. af samstarfsflokknum í ríkisstjórn, og hafi leitt til þess að við höfum ekki náð að leiða þetta mál til lykta. Þess vegna er núna komið annað frumvarp þar sem á að færa löggjöfina til samræmis við Norðurlöndin. Við erum ekki að ganga jafn langt og Norðurlöndin. Það náðist greinilega ekki í samningaviðræðum stjórnarflokkanna. Við erum ekki að ná því. Varðandi að það hafi náðst árangur í fækkun þá var Flokkur fólksins með frumvarp um að það tæki ekki til efnahagslegra flóttamanna. Við þurftum að bíða eftir kærunefndinni, að hún úrskurðaði aftur, og það voru 1.500–1.600 einstaklingar hér sem þurfti að flytja, sem þarf enn þá að flytja, selflutningum til Venesúela, vegna þess að Alþingi Íslendinga, (Forseti hringir.) meiri hlutinn, hafði ekki manndóm í sér til að samþykkja breytingar hvað það varðar. Bara svo það liggi algerlega fyrir tel ég að Sjálfstæðisflokkurinn beri meiri ábyrgð á þessu máli (Forseti hringir.) en aðrir flokkar vegna þess að þeir hafa talað fyrir öðru en þeir svo gerðu. Það er mjög mikilvægt fyrir flokkinn að hafa í huga, að þetta er atriði sem skiptir öllu máli þegar við tölum um þennan málaflokk.