154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:45]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Við erum öll sammála um markmiðin. Við viljum auka skilvirkni í þessum málaflokki. Við viljum tryggja ábyrga meðferð ríkisfjármuna. Við viljum stuðla að inngildingu fólks í okkar samfélagi, bæði fólkinu sjálfu og samfélaginu til heilla, og við viljum taka okkur til fyrirmyndar það sem vel gengur í öðrum löndum. Þetta frumvarp gerir ekkert af þessu, ekki neitt. Það vinnur gegn inngildingu, það eykur álag á innviðina og Útlendingastofnun og á kærunefnd útlendingamála með því að stytta gildistíma dvalarleyfa svo það þarf oftar að sækja um endurnýjun, með því að kalla á málaferli í tengslum við fjölskyldusameiningar, með því að valda fólki óöryggi og eymd, með styttri gildistíma dvalarleyfa, með því að það geti ekki sameinast fjölskyldunni sinni. Þetta mál er einhvers konar skilaboð út í samfélagið um að Sjálfstæðisflokkurinn sé svo rosalega mikið að halda utan um hlutina og gera það sem gera þarf, en þetta er bara vitleysa. Þetta er bara vitleysa og þetta vinnur ekki að þeim markmiðum sem við erum öll sammála um.

Hv. þm. Bryndís Haraldsdóttir (Forseti hringir.) talaði um að málið hefði verið unnið vel í allsherjar- og menntamálanefnd. Þetta er rétt, það var mikið rætt (Forseti hringir.) og það kom mikið af umsögnum en því miður var ekkert á það hlustað (Forseti hringir.) og þá er ekki hægt að segja að málið sé vel unnið. — Ég segi nei.