154. löggjafarþing — 123. fundur,  14. júní 2024.

útlendingar.

722. mál
[11:48]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Það er nú bara svo að eins og kerfið er í dag þá tekur fjölskyldusameining mjög langan tíma. Oft eru það eitt, tvö ár eða lengri tími sem bara ferlið að fara í fjölskyldusameiningu og fá fjölskylduna til landsins tekur. Það er nú bara þannig að fylgdarlaus börn hafa þurft að bíða í hátt í tvö ár eftir að sameinast fjölskyldum sínum, ein hér á Íslandi, bíða og vita ekki hvort fjölskyldu sinni sé kalt, hvort hún sé á lífi, ná ekki í hana. Við erum að auka á einmanaleika í samfélaginu. Við erum að auka á einangrun einstaklinga á flótta. Það er alveg klárlega þannig. Að við séum að segja að þetta sé skilvirkt og til bóta — það er bara aldrei til bóta að sundra fjölskyldum. Það er mjög skýrt.