154. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2024.

frestun afgreiðslu samgönguáætlunar.

[14:02]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegur forseti. Hér fór hv. þingmaður mikinn og niðurstaðan var ein spurning, held ég, hvort Sigurður Ingi sé sami maðurinn og Sigurður Ingi. Ef hún átti við þann Sigurð Inga sem hér stendur þá er hann sami maðurinn. 900 milljarða fjárfesting á 15 árum er reyndar ekki alveg rétt, svo ég leiðrétti hv. þingmann. Það eru 900 milljarðar sem fara til samgöngumála, það er þá allt umfang, bæði vegagerð og Samgöngustofa á sama tímabili, en fjárfestingin er umtalsverð og gríðarleg og mikil og tekur á fjölmörgum þáttum eins og samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, PPP-verkefnum, samvinnuleiðarverkefnunum, jarðgangaáætlun og slíku.

Ég heyrði hv. þingmann nota talsvert hástemmd lýsingarorð um gríðarlega vinnu nefndarinnar en nú er það svo að ég hef heyrt frekar lítið af störfum nefndarinnar framan af vetri. Ég veit að hún hefur starfað þétt að þessari samgönguáætlun síðustu vikurnar en þegar ég var innviðaráðherra þá fundust mér hlutirnir ganga býsna hægt. Ég þekki ekki til þess að það sé einhver sérstakur ágreiningur á milli stjórnarflokkanna um afgreiðslu einhverra mála í samgönguáætlun heldur er einfaldlega samgönguáætlunin þannig að núverandi samgönguáætlun er í gildi og öll verkefni sem þar eru eru fjármögnuð og þar af leiðandi truflar ekkert þau verkefni. Það eina sem hefur staðið út af eru hafnarframkvæmdir vegna þess að það eru samstarfsverkefni með sveitarfélögunum og hafnarsjóðunum. Ég veit að meiri hluti nefndarinnar og ráðuneyti innviða hafa verið að skoða hvernig hægt er að tryggja að þær framkvæmdir geti haldið áfram. Ég vil fullvissa hv. þingmann að stundum batna mál við það að fara í gegnum skoðun aftur og aftur og stundum er nóg að þau fari í gegnum eitt þing en það er ekkert í húfi sem mun trufla það að samgönguframkvæmdir, (Forseti hringir.) viðhald og framkvæmdir samkvæmt núgildandi samgönguáætlun haldi áfram eins og ég þekki það.