154. löggjafarþing — 124. fundur,  18. júní 2024.

umferðarlög.

400. mál
[20:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta um.- og samgn. (Ingibjörg Isaksen) (F):

Frú forseti. Ég mæli hér fyrir hönd meiri hluta umhverfis- og samgöngunefndar fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á umferðarlögum. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á umferðarlögum til skýringar og vegna fyrirhugaðra innleiðinga nokkurra Evrópugerða, eins og nánar er farið yfir í greinargerð með frumvarpinu.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund gesti og bárust umsagnir. Greint er frá því í nefndaráliti sem liggur hér frammi.

Nefndin fjallaði m.a. um fjarnám og endurmenntun ökumanna og telur meiri hlutinn brýnt að vinnu við uppfærslu námskrár sé haldið áfram með það í huga að auka sveigjanleika við endurmenntun. Þá ræddi nefndin hlutverk Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar og Samgöngustofu samkvæmt frumvarpinu. Lagt er til að Samgöngustofa fari með hlutverk viðurkenningarstjórnvalds en að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun verði falið að vera markaðseftirlitsstjórnvald fyrir vélknúin ökutæki og annað þeim tengt. Bendir meiri hlutinn á mikilvægi þess að hugað verði að fjármögnun þessa verkefnis stofnunarinnar til framtíðar og að með fyrirkomulaginu sé tryggð aðgreining viðurkenningarstjórnvalds og markaðseftirlitsstjórnvalds eins og kveðið er á um í reglugerð EB 2018/858.

Nefndin ræddi einnig tillögu umsagnaraðila um breytingar á akstri torfærutækja um að heimilt yrði að aka slíkum tækjum á landsvegum og að heimilt yrði að fá þau skoðuð hjá viðurkenndum skoðunarstöðvum. Meiri hlutinn bendir á að þetta sé fyrir utan efni og markmið frumvarpsins en telur mikilvægt að löggjöf haldi í við aukna notkun torfærutækja og beinir því til ráðherra að skoða mögulegar breytingar á umferðarlögum um skráningar og notkun torfærutækja.

Meiri hlutinn leggur til tvær breytingar á frumvarpinu; annars vegar til samræmingar á hugtakanotkun og hins vegar breytingu sem tryggir að innleiðingarákvæðið fari með réttum hætti inn í umferðarlögin.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem hér hefur verið gerð grein fyrir.

Undir nefndarálit meiri hlutans rita, auk þess sem hér stendur, hv. þingmenn Bjarni Jónsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Vilhjálmur Árnason, Halla Signý Kristjánsdóttir, Orri Páll Jóhannsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir, með fyrirvara.