154. löggjafarþing — 128. fundur,  20. júní 2024.

réttindagæsla fyrir fatlað fólk.

922. mál
[22:29]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P):

Forseti. Ég kem hérna upp, aldrei þessu vant, til að fagna viðbrögðum ráðuneytisins við athugasemdum sem bárust um þetta mál og ætla að fá að tæpa örlítið á því sem kemur fram í minnisblaði frá félags- og vinnumarkaðsráðuneytinu til velferðarnefndar, með leyfi forseta:

„Í umsögnunum er gerð sú athugasemd að ákvæðið sé of þröngt og ætti að ná til allra þeirra kvörtunar- og kæruleiða sem borgurum standa almennt til boða, en ekki einungis úrskurðarnefndar velferðarmála og Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála.

Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið tekur undir athugasemdina og telur að orða megi ákvæðið með opnari hætti svo skýrt sé að réttindagæslumaður geti veitt fötluðum einstaklingum viðeigandi stuðning við að tryggja lögvarin réttindi sín hjá þar til bærum aðilum.“

Ég vil fagna þessu sérstaklega. Þetta var mikilvæg athugasemd sem barst frá nokkrum umsagnaraðilum. Það eru fleiri athugasemdir sem bárust sem ráðuneytið brást við með því að leggja til breytingar á frumvarpinu sem eru til bóta. Það er bara skemmtileg tilbreyting að geta komið hingað upp og fagnað því sem vel er gert og vildi ég gera það. Þá vil ég vekja athygli á því að þetta mál er beintengt við það að setja á fót Mannréttindastofnun Íslands, sem er sannarlega gott mál líka, svo gott að umsagnir voru samhljóða um að það eina sem þyrfti að tryggja þar væri fjármögnun, sem er ekki fulltryggð.

Þriðja atriðið sem mig langar til að nefna í tengslum við þetta mál eru athugasemdir sem einstaklingar sem hafa sinnt hlutverki réttindagæslumanns hingað til gerðu varðandi núverandi stöðu embættisins innan ráðuneytisins og undir ráðuneytinu. Úr þessu verður bætt með því að fella embættið undir Mannréttindastofnun og er það mjög vel. Ég er bjartsýn á það að hlutverk og verkefni réttindagæslumanna fatlaðs fólks muni batna heilmikið við þessar breytingar. Ég fagna þessu máli.