154. löggjafarþing — 129. fundur,  22. júní 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[00:02]
Horfa

Frsm. 4. minni hluta (Jóhann Páll Jóhannsson) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það sem ég gleymdi líka að minnast á hér er að það er Vinstrihreyfingin – grænt framboð sem fer með matvælaráðuneytið í þessari ríkisstjórn, fer með fyrirsvar í þeim málum er varða sjávarútveg í þessari ríkisstjórn. Þess vegna er þetta allt með miklum ólíkindum. Hv. þingmaður veit auðvitað jafn vel og ég að það að mynda ríkisstjórn og vinna saman í ríkisstjórn og mynda stjórnarmeirihluta á þingi snýst m.a. um að stýra því hvaða mál komast til atkvæða og hver ekki, hvaða mál daga uppi í nefnd og hver ekki. Málum er ekki hleypt í gegnum nefnd í óþökk eins af þremur stjórnarflokkum nema sá flokkur sé bara orðinn að einhvers konar gólftusku í ríkisstjórnarsamstarfi. Getur ekki hv. þingmaður tekið undir það? Er það ekki bara tilfellið hér?