154. löggjafarþing — 130. fundur,  22. júní 2024.

listamannalaun.

937. mál
[12:30]
Horfa

Sigmar Guðmundsson (V) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Þingflokkur Viðreisnar greiðir atkvæði með þessu máli. Það er auðvitað fagnaðarefni að það skuli koma fram en mér finnst samt rétt að endurtaka það sem ég sagði hér í þingsal í gær, að það lá auðvitað ekki fyrir þegar málið kom fram fyrst, en skýrðist svo í meðförum nefndarinnar, að það var ekki fjármagnað að fullu og því þurfti að gera breytingar á því. Það er verið að fjármagna þessi starfslaun listamanna að hluta til með því að skerða aðra sjóði listamanna, sjóði sem listamenn ganga í, og verður það gert á seinni hluta fjármálaáætlunar. Þetta lá ekki ljóst fyrir þegar gestakomur voru fyrir allsherjar- og menntamálanefnd. Þótt það sé mikið fagnaðarefni að þetta mál sé komið hér fram þá er mjög nauðsynlegt að halda því til haga að það breyttist talsvert í meðförum nefndarinnar með því lagi sem ég lýsti hér.