154. löggjafarþing — 131. fundur,  22. júní 2024.

Náttúruverndar- og minjastofnun.

831. mál
[22:09]
Horfa

Lárus Vilhjálmsson (P):

Frú forseti. Náttúruvernd er lykilatriði þess að lífvænlegt verði hér á jörðinni fyrir komandi kynslóðir. Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, António Guterres, kallar stöðuna í loftslagsmálum hraðbraut til helvítis. Vísindin eru skýr hvað þetta varðar. Hækkun hitastigs jarðar vegna losunar gróðurhúsalofttegunda er að ná krítísku marki og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum. Ofsafengið veðurfar, þurrkar, flóð og skógareldar verða daglegt brauð fyrir íbúa jarðarinnar næstu áratugi sem þýðir einnig útrýmingu vistkerfa, aldauða dýrategunda og eyðileggingu ræktarlands og búhaga með tilheyrandi afleiðingum fyrir manninn, eins og hungursneyð, stríðsátökum og flóttamannastraumi.

Við erum nú þegar farin að sjá varúðarmerkin. Jöklarnir eru að hverfa, bæði á Grænlandi og Íslandi, þurrkar og hungursneyðir geisa í Afríku og Asíu, flóð og stormar eyða ræktarlöndum og híbýlum fólks um allan heim og átök um vatn og aðrar auðlindir eru daglegt brauð. Milljónir manna flýja heimkynni sín þar sem lífsskilyrðin eru orðin óbærileg. Ofan á þetta eru stríðsátök í Úkraínu, í Miðausturlöndum, í Afríku og Asíu og stríðsherrar hóta notkun kjarnorkuvopna.

Almenningur víða um heim er farinn að gera sér betur grein fyrir alvarleika loftslagsvárinnar og sérstaklega unga fólkið sem þarf að bera afleiðingarnar. Þúsundir hafa mótmælt á alþjóðafundum og hér á Íslandi hafa ungmenni mótmælt fyrir framan Alþingi. Þau hafa kallað á aðgerðir og alþjóðlegt samstarf um lausnir. Samt vill enginn hlusta. Stjórnmálamenn tala digurbarkalega um lausnir á flottum og fínum alþjóðafundum en gera ekki neitt nema koma með innantóm loforð og tóma samninga. Það sama á við um íslensk stjórnvöld. Þau hafa undanfarin ár talað fjálglega um að leysa loftslagsvandann og sett fram markmið í stjórnarsáttmála sem á að draga úr losun Íslendinga um 55% fyrir 2030, sem er markmið sem er algerlega vonlaust. Og í ofanálag hefur hæstv. umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra lagt áherslu á að til að hægt sé að ná því markmiði þurfi að virkja meira og eyðileggja fleiri náttúrugersemar.

Er ekki eitthvað bogið við þetta, frú forseti? Þarf ekki að varðveita gersemar íslenskrar náttúru og meira af ósnertum víðernum, mýrum, skógi, dýralífi af öllum toga og fiski og hvölum í sjónum? Þarf ekki meira af þjóðgörðum og friðuðum svæðum og minna af raski á náttúrunni með subbuskap og algjöru virðingarleysi eins og sjá má í lagareldi og orku- og virkjunarframkvæmdum? Þarf ekki að segja nei við vindorkuturnum á hverjum fjallstoppi og í hverjum dal og laxeldi sem drepur fiska og firði? Þurfum við ekki minna af álbræðslum sem vinna hráefni í vígvélarnar í Úkraínu og á Gaza og minna af gagnaverum sem grafa eftir glæpamannafé og ausa í okkur bullinu á Facebook? Og þarf ekki að segja nei við snákasölumönnum sem vilja drekkja kanadísku trjákurli í Faxaflóa og dæla mengun frá Evrópu og Ameríku í iður Reykjanesskaga? Er ekki betra að endurheimta votlendi og breyta bensínstöðvum í hleðslustöðvar? Er ekki nær að við notum orkuna sem við eigum núna til að hita upp heimilin okkar og gróðurhúsin og að við virkjum sköpunarkraft landsmanna til að mynda jarðveg fyrir sjálfbærar atvinnugreinar sem misnota hvorki náttúru né mannlíf? Það má heldur ekki grafa undan þeim áföngum sem hafa náðst í náttúruvernd á Íslandi með sérkennilegum tillögum um að steypa saman í eina stofnun orku- og umhverfismálum og náttúruvernd og fornleifum. Þótt hæstv. umhverfis-, orku-, loftslags-, náttúruverndar- og fornleifaráðherra finnist það sniðugt þá finnst flestum það vont mál. Kannski sparast einhverjir aurar í skrifstofuhaldi en eru fossarnir og firnindin einhverju bættari?

Frú forseti. Mig langar að enda þetta með nokkrum orðum til okkar allra. Þegar ég horfi á börnin og barnabörnin mín þá finnur maður hversu óendanlega mikilvægt það er að þau og afkomendur þeirra eigin framtíð á þessari jörð, finni sér stað í lífinu og njóti hverrar stundar á þessari fallegu plánetu. Það eitt ætti að vera nægjanleg ástæða fyrir því að það sé okkur forgangsatriði að vernda náttúru jarðar af fremsta megni, meta og varðveita auðlindir hennar og gera þannig okkar besta til að tryggja tilveru barnanna okkar í framtíðinni. Það verður að gera betur.