154. löggjafarþing — 131. fundur,  22. júní 2024.

veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og stjórn fiskveiða.

521. mál
[22:22]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil mæla hér fyrir og kynna breytingartillögu sem ég hef lagt fram við frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um stjórn fiskveiða, veiðistjórn á grásleppu. Til að fylgja því úr hlaði þá vil ég segja að umdeildasti hluti þess frumvarps sem hér er rætt er framsal veiðiheimilda. Með þessari breytingartillögu er þess freistað að koma á móts við þær áhyggjur. Ákvörðun um hlutdeildarsetningu á grásleppu yrði þá með öðru sniði en tíðkast hefur í fiskveiðistjórnarkerfinu. Með því frumvarpi sem hér er til afgreiðslu verður tekin upp ný aðferð við fiskveiðistjórn á grásleppu með hlutdeildarsetningu. Ég sé í hvað stefnir með afgreiðslu þessa máls. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að hlutdeildarsetning á grásleppu sé óþörf til að stuðla að sjálfbærri nýtingu. Hægt er að ná sömu markmiðum og betur með umbótum á núverandi umgjörð veiðanna, sem ég fór að nokkru yfir í ræðu í gærkvöldi og vísa til þess. Margir óttast að margt það sem varað hefur verið við verði grásleppa hlutdeildarsett muni enn frekar raungerast með heimildum til framsals veiðiheimilda. Því er ástæða til að stíga varlega til jarðar. Þar sem ekki er komin reynsla á áhrif hlutdeildarsetningar á fiskveiðistjórn grásleppu er með þessari breytingartillögu sem ég tala hér fyrir lagt til að sett verði inn tímabundin takmörkun á framsali aflahlutdeilda. Þetta ákvæði takmarkar þó ekki ráðstöfun aflamarks á tímabilinu og gefur tækifæri til að meta áhrif hlutdeildarsetningar án þess að hrófla við hlutdeildum einstakra báta á tímabilinu. Sá sem hér stendur telur þessa breytingartillögu til þess fallna að bæta umdeilt mál, ná breiðari sátt um þá niðurstöðu sem hér virðist liggja fyrir og ég hef talað gegn í óbreyttri mynd.