155. löggjafarþing — 3. fundur,  12. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[12:41]
Horfa

Njáll Trausti Friðbertsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Þetta með séreignarsparnaðinn kom einmitt fram í ræðu minni í morgun í nokkuð ítarlegu máli. Þetta lít ég á sem mikilvægt atriði og við munum örugglega taka það til umræðu núna í haust í samtalinu inni í fjárlaganefnd. Það er rétt að halda því til haga, og ég hef kannski oft komið og talað um það áður, að ég held að við á Íslandi eigum og munum eiga um langa framtíð við allt önnur mál en almennt t.d. í Evrópu og Evrópusambandinu. Þar er verið að reyna að kynda undir hagvextinum. Við þekkjum alveg, og hæstv. fjármálaráðherra kom inn á það, vandamál Þýskalands, sem er bílaframleiðsla. Ég hef stórkostlegar áhyggjur af því, enda eru að koma merki um og var byrjað að tala um það fyrir mörgum árum að í samkeppni við Kínverja og kínverskan bílaiðnað eru menn að lenda undir. Ef Evrópa hættir að framleiða þá hnignar hún, hún mun lenda í gríðarlegum vandræðum í tengslum við það. Á sama tíma erum við meira bara að reyna að halda pottlokinu á möguleikum á Íslandi í sambandi við hagvöxt. Það sem við erum að fást við núna í verðbólgunni er að við erum enn að koma henni niður með því að hægja á atvinnu og verðmætasköpun í sjálfu sér á meðan aðrar Evrópuþjóðir reyna að ná hagvexti af stað. Við erum á allt öðrum stað en Evrópusambandið þannig að það er raunverulega engin tenging efnahagslega á milli Íslands og Evrópusambandsins. Þess vegna held ég að það sé bara mikið óráð að hugleiða einhverja slíka hluti í dag og til næstu ára vegna þess að við erum á allt öðrum stað efnahagslega og munum verða það.

Ég hef fulla trú á því að við förum að nýta orku skynsamlega og aðrar auðlindir og förum að byggja á raunverulega öflugri samkeppnishæfni sem við höfum umfram margar aðrar þjóðir. Varðandi hagvöxt á mann er rétt að halda því til haga að síðustu 30 ár eru fá lönd í heiminum þar sem hefur byggst upp annar eins hagvöxtur per capita og hér. Landsframleiðsla á mann á Íslandi er núna í efstu fimm sætunum í heiminum u.þ.b. eða að minnsta kosti af þessum viðmiðunarlöndum okkar. Þannig að við erum svolítið annars staðar en umhverfið í kringum okkur.