155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[09:40]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta. Þau frumvörp sem nú eru að koma inn í þingið eru mjög stefnumarkandi og byggja á menntastefnu til 2030 sem samþykkt var hér á Alþingi og aðgerðaáætlun menntastefnu, hvort sem það eru heildarlög um jafngildingu og skólaþjónustu sem eru væntanleg, frumvörp um námsgögn sem bókaútgefendur tala um að séu stærstu breytingar í hundrað ár eða frumvarp um matsferil og samræmt námsmat. Það er mikilvægt að eiga samstarf við ólíka aðila í þessu efni vegna þess að breytingar í menntamálum taka tíma. Það er mikilvægt að virkja alla aðila til samstarfs og samvinnu og það höfum við svo sannarlega gert hvað varðar haghafana þegar kemur að menntakerfinu, Kennarasambandið, Samband sveitarfélaga, háskólana, Heimili og skóla og fleiri aðila. Það sama á við um stjórnmálin og pólitíkina. Mér finnst menntamál eiga að vera þess eðlis að við eigum ekki að vera að taka u-beygjur í hvert sinn sem skipt er um í brúnni. Þetta eru langtímabreytingar sem taka tíma. Nú erum við að ljúka fyrstu aðgerðaáætlun um menntastefnu, drög að næstu aðgerðaáætlun liggja fyrir. Það er meiningin að kynna þau og eiga samtal um þau við alla aðila á menntaþingi sem áætlað er að verði síðar í september, hundruð einstaklinga búin að skrá sig þar til leiks. Ég myndi gjarnan vilja sjá fulltrúa allra stjórnmálaflokka koma þangað og ég lýsi miklum vilja til þess að vinna með ólíkum aðilum í því, stjórnmálaflokkum og öðrum. Ég átti nú bara samtal við formann allsherjar- og menntamálanefndar í gær og ræddi um það að skynsamlegt væri inn í þennan þingvetur að undirbúa, og það er þegar í gangi hjá formanni allsherjar- og menntamálanefndar, heimsókn í Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og eiga samvinnu við ráðuneytið í því.