155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[09:44]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Öllum er frjálst að taka þátt í umræðum um menntamál og við eigum að virkja alla til þess samtals. Það liggur fyrir að aðgerðaáætlun menntastefnu er opinbert plagg. Menntastefnan sjálf er opinbert plagg. Frumvörpin sem um ræðir, og eru að koma inn í þingið, fela í sér gjörbreytt mat á íslensku menntakerfi í gegnum samræmt námsmat, matsferil, námsgögn, eflingu þeirra, breytingu á námsgagnaútgáfu, skólaþjónustu og inngildandi menntun sem þúsundir aðila hafa, í undirbúningi þess frumvarps, tekið þátt í. Stefnan er algjörlega skýr í þessu efni og birtist m.a. í þessum stóru frumvörpum sem eru að koma inn í þingið. Síðan er undirbúningur næstu aðgerðaráætlunar og þar eru allir velkomnir að borðinu, sama hvort það eru þingmenn stjórnarandstöðu hér í salnum eða aðrir hagaðilar, og við viljum fá alla að borðinu í því. En auðvitað eru skiptar skoðanir, eins og til að mynda um námsmat, hvort við eigum að halda í gömlu samræmdu prófin eins og þau voru uppsett eða fara aðrar leiðir. Það verður alltaf þannig, þegar við erum að ræða breytingar í menntamálum eins og öðru, að skoðanir eru skiptar.