155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[09:47]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Þegar kemur að íþróttastarfi almennt þá er það sem lýtur að almenningsíþróttastarfinu að verulegu leyti hjá sveitarfélögunum og hjá svæðunum í kringum landið, íþróttahéruðunum, íþróttafélögunum. Við höfum stutt mjög dyggilega við ákveðnar skipulagsbreytingar sem íþróttahreyfingin sjálf er að fara í gegnum núna. Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Ungmennafélag Íslands fóru í samstarf um eflingu íþróttastarfs á landsvísu með það að markmiði að setja upp ný svæði og fara í samstarf inni á hverju og einu landsvæði fyrir sig. Við höfum stutt það með gríðarlega háum fjárhæðum með það að markmiði að efla almenningsíþróttastarf, og í raun með uppbyggingu á sérstökum hvatasjóði sem hægt er að nýta, m.a. til þess að efla það starf. Íþróttahreyfingin er að undirbúa auglýsingar úr þeim sjóði þar sem markmiðið er að á hverju og einu landsvæði sé þéttari vinna sveitarfélaga, íþróttafélaga, skóla og annarra aðila með það að markmiði m.a. að efla almenningsíþróttastarf. Ég held að það sé spennandi verkefni vegna þess að maður skynjar mikinn vilja innan íþróttahreyfingarinnar til að hugsa um sjálfa íþróttahreyfinguna, skipulag hennar og hvernig hún nær betur til grasrótarinnar í kringum landið. Við höfum því verið að fara þá leið og ég sé fyrir mér að geta stigið enn frekari skref í því að virkja þetta samstarf þeirra í millum þarna úti í héruðunum. Það tengist líka inn í farsældarvinnuna sem er væntanleg í vetur þar sem meiningin er að fara yfir hvert einasta landsvæði og ræða þvert á kerfi hvernig hægt er að taka á áskorunum, og þar er m.a. átt við íþróttir og hreyfingu fólks.

Hvað varðar eldra fólk þá hefur líka verið samvinna og samráð milli heilbrigðisráðuneytis, menntamálaráðuneytis og íþróttahreyfingarinnar hvað það snertir að kortleggja ákveðnar leiðir í því efni.