155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[09:53]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessa fyrirspurn. Henni verður því miður ekki svarað fyllilega á tveimur mínútum. Ég tek undir með hv. þingmanni hvað varðar þann hræðilega atburð sem átti sér stað á Menningarnótt. Það er tvíþætt sem mig langar til að koma inn á. Til þess að ná tökum á þessu þarf alla aðila samfélagsins að borðinu. Við þurfum að efla löggæslu. Við þurfum að efla úrræði. Við þurfum að efla fyrirbyggjandi aðgerðir og við þurfum að efla félagslegan stuðning. Við þurfum að efla æskulýðs- og ungmennastarf o.s.frv. Við vorum farin af stað með aðgerðir snemmsumars, ég og dómsmálaráðherra annars vegar og ég og heilbrigðisráðherra hins vegar, sem kynntar voru í júnímánuði. Þær eru komnar á fullt í innleiðingu. Ríkisstjórnin hefur líka tekið ákvörðun um að leggja það til við Alþingi að fjármagn sem rennur til þeirra verði margfaldað, bæði á yfirstandandi ári og á næsta ári, og mun gefast tækifæri til að ræða það frekar.

Þegar kemur að börnum með fjölþættan vanda þá hefur það verið mín skoðun að ríkið eigi að taka yfir þjónustu við þau. Við létum vinna ákveðna greinargerð um það hverju það gæti skilað, bæði fyrir þau börn sem í hlut eiga og einnig hvað varðar arðsemi samfélagsins. Það væri milljarðasparnaður af því ef ríkið tæki þennan málaflokk að sér, það myndi sparast í heild hjá ríki og sveitarfélögum. Þetta lá fyrir fyrir ári síðan. Þetta fór síðan inn í samtal um málefni fatlaðs fólks, í pakka þar, og ákveðið var að greina ætti þetta eilítið betur. Þess vegna fór það ekki inn í fyrsta aðgerðapakkann í málefnum fatlaðs fólks sem var kynntur í fjárlögum síðast. Það voru mér mikil vonbrigði að það skyldi ekki gerast. Í framhaldinu hefur sú greiningarvinna verið í gangi og eru að koma tillögur í því efni um að ríkið taki þennan málaflokk yfir og verður það verkefni haustsins að finna leiðir til þess að svo megi verða. Við erum með undirbúna áætlun um það hvernig ríkið getur tekið þjónustu við þessi börn yfir (Forseti hringir.) og náð bæði betri árangri í úrræðum og meðferð en líka fjárhagslegum ávinningi fyrir samfélagið.