155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:44]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Eins og ég sagði áðan í máli mínu þá höfum við frá upphafi stutt við þetta verkefni. Við gerum það áfram. Við erum í samtali við Háskólann, Vestmannaeyjar og alla sem koma að þessu verkefni um hvernig við getum gert það af meira afli og meiri krafti og ég reikna með því að það verði kynnt þegar því samtali er lokið. Markmiðið er að aðstoða fleiri skóla við það að taka upp verkefni eins og Kveikjum neistann. Og þegar ég segi það héðan úr ræðustól að það séu fleiri jákvæð verkefni sem við viljum aðstoða við þá er það þannig. En Kveikjum neistann er eitt þeirra og við eigum að fylgja því eftir. Það er vinna í gangi um það og samtal á milli ráðuneytisins og allra þeirra aðila sem að því koma um hvernig við getum gert það. En við höfum stutt við verkefnið fjárhagslega. Við erum stofnaðilar að verkefninu og munum vera það áfram. Það er mikill vilji til að læra af reynslu Vestmannaeyinga og stíga frekari skref í Vestmannaeyjum vegna þess að samfélagið þar er ótrúlega framsækið og tilbúið til að stíga frekari skref í þróun á íslensku menntakerfi og við munum styðja við það líka. (Gripið fram í.)