155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:48]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir og tek undir með þingmanninum um mikilvægi þess að stíga skref í námsgögnum og ítreka aftur það sem ég sagði áðan, að þrátt fyrir áform um að tvöfalda þróunarsjóð námsgagna og námsgagnasjóð á næsta ári þá eigum við talsvert langt í land með að fjárfesta nægilega mikið í námsgögnum í íslensku samfélagi. Því er mikilvægt að sú áætlun sem lögð er upp samhliða frumvarpinu gangi eftir til ársins 2030. Það munum við þurfa að ræða í fjármálaáætlun vorsins.

Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að setja gæðakröfur á námsefni og það er líka eitt af því sem er í þessu frumvarpi. Nú erum við kannski komin aðeins of mikið í fagumræðu um frumvarpið í umræðum um fjárlög, en þar eru m.a. tveir mjög mikilvægir póstar sem ég held að stígi ákveðið inn í það sem hv. þingmaður vitnar til. Annars vegar að ráðherra sé falið í samstarfi við Miðstöð menntunar og skólaþjónustu og hagaðila að setja ákveðin gæðaviðmið þegar kemur að námsefni, vegna þess að um leið og við ætlum að efla hinn almenna markað þurfum við að hafa ákveðin gæðaviðmið sem þarf að vinna eftir. Hins vegar, ekki síður mikilvægt, að ráðherra sé skylt að vinna þetta í samstarfi við ólíka aðila, sérstaklega við skólakerfið, og ekki síst í samræmi við niðurstöður úr nýju matsferli, þessu samræmda námsmati sem á að vera sívirkt, og setja ákveðna útgáfuáætlun til ákveðins tíma þar sem horft verði til þess hvar eigi að leggja áherslu, á hvaða fög, á hvaða skólastig og með hvaða hætti útgáfunni eigi að vera háttað til næsta árs og næstu ára. Þegar kemur að hugsuninni núna, þegar við aukum við námsgagnaútgáfuna á næsta ári, þá liggur ekki fyrir á þessum tímapunkti hvernig þetta mun nákvæmlega skiptast niður á leik-, grunn- og framhaldsskóla en hvað varðar aukninguna til þessara sjóða (Forseti hringir.) þá munum við setja þau viðmið þegar við auglýsum sjóðina um áramótin, enda verði búið að samþykkja frumvarpið og fjárlög, og gæfist þá tækifæri til að stíga fyrsta skrefið þótt ekki (Forseti hringir.) liggi fyrir útgáfuáætlun sem frumvarpið gerir ráð fyrir að verði smíðuð í framhaldinu. Ég vona að þetta svari spurningunni.