155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:52]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla að reyna að svara hratt. Til að bæta við umræðuna síðan áðan þá geri ég ráð fyrir að megináhersla næsta árs verði á nemendur með erlendan tungumála- og menningarbakgrunn. Skuldin er svo mikil þegar kemur að þessum börnum og við sjáum í allri tölfræði að þau eru á eftir, því er gríðarlega mikilvægt að við leggjum sérstaklega áherslu á þau. Þegar kemur að samtalinu við kennarana og að námsgögnin nýtist er hluti af þessari vinnu að setja upp sérstaka námsgagnaveitu sem er eiginlega svona verkfærakista fyrir ólíka aðila til að setja inn námsefni. Vinna er komin í gang við að setja hana upp og það skiptir máli, líka upp á samtalið þarna á milli. Síðan er það samspil þessarar námsgagnaveitu við það sem við munum sjá út úr samræmda námsmatinu og því. Samspilið og tengingin þarna á milli skiptir líka máli.

Afreksíþróttir — við gerum ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að setja 250 millj. kr. aukalega til þess málaflokks á næsta ári. (Forseti hringir.) Í gangi er vinna við að móta innleiðingaráætlun á tillögum Vésteins Hafsteinssonar sem eiga að koma í þingsályktunarformi inn í þingið. (Forseti hringir.) Hluti af þeirri vinnu er að endanlega fjárhagsmeta tillögurnar og eiga samtöl við íþróttahreyfinguna um það. Þetta er fyrsta skrefið í því og við ætlum okkur að vera alveg klár með þá (Forseti hringir.) þingsályktunartillögu fyrir 2. umræðu fjárlaga til að geta tengt þetta tvennt saman.