155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:55]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að birta þessar tölur og tölfræði reglulega vegna þess að við eigum að nota tölfræði í málefnum barna í miklu meira mæli og gera það á dýpri hátt til þess að átta okkur á því hvar við getum stigið inn og hvar þarf að bregðast við.

Það er einmitt þannig sem mig langar að taka þessa spurningu hv. þingmanns vegna þess að sumt hefur tekist vel, annað hefur ekki tekist alveg eins vel. Við höfum verið að auka geðheilbrigðisþjónustu í heilbrigðisráðuneytinu, m.a. fyrir börn með Geðheilsumiðstöð barna. Þó að biðlistar séu langir þar þá er það m.a. vegna þess að eftirspurnin hefur aukist svo mikið. Eftirspurnin eftir þjónustu þar hefur vaxið og það kom m.a. fram í fréttum í gær. Þá þurfum við að leita allra leiða til að efla annars og þriðja stigs þjónustu en líka spyrja okkur út frá gögnunum: Hvað er það sem veldur í íslensku samfélagi að eftirspurnin eftir þessari þjónustu er að aukast svona? Og nota gögnin líka með þeim hætti og fara dýpra inn í það. Það höfum við líka verið að gera núna og þar held ég að við getum sannarlega gert betur. Ef við skoðum til að mynda eina stofnun sem heyrir undir mitt ráðuneyti, Ráðgjafar- og greiningarstöð, sem er að meta m.a. börn sem eru með einhvers konar þroskafrávik, þá er, þegar þú rýnir vinnugögnin betur, allt of stór hluti barna sem kemur þar inn ekki með þroskafrávik. Þau eru bara ekki búin að ná grundvallarskilningi í íslensku og fara þess vegna þar inn. Eigum við þá ekki að reyna að byrja á þeim enda og reyna að stíga fastar inn í íslenskukennslu og aðstoða við það sem við höfum verið að ræða hér, m.a. við hv. þingmann sem talaði hér á undan, varðandi námsgögn? Þannig að við þurfum að nota gögnin og fara dýpra í og rýna þau. En þessi gögn eru sannarlega mikilvæg og sumt hefur tekist vel. (Forseti hringir.) Annars staðar gætum við eflt meira, en við megum ekki detta í þá gryfju (Forseti hringir.) að ætla að leysa þriðja stigs vandann með því að horfa ekki fyrr á það hvernig við leysum hann og (Forseti hringir.) þurfum þess vegna oft og tíðum að fara dýpra í gögnin.