155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[10:58]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég skal nefna eitt atriði sem ég nefndi hér í andsvörum fyrr, það varðar þjónustu við börn með fjölþættan vanda, börn með flóknar áskoranir, sem er mjög líklegt að séu börn sem eru inni hjá öllum þessum aðilum í þessari þriðja stigs þjónustu. Þetta hefur verið á hendi sveitarfélaganna. Við höfum fengið skýrslu sem sýnir að það geti sparast hjá hinu opinbera, ríki og sveitarfélögum, samanlagt nokkrir milljarðar í peningum ef við myndum samhæfa þetta á einum stað hjá ríkinu. Mér fundust það vonbrigði að við skyldum ekki taka þetta í aðgerðapakka í málefnum fatlaðs fólks sem samþykktur var hér á haustönn í fyrra og var settur í þann farveg að fara í frekari samtal og greiningar með Sambandi íslenskra sveitarfélaga og fleirum. Nú liggur það fyrir að þarna hefðum við getað stigið fastar inn.

Það er líka þannig að ég hefði viljað sjá okkur stíga fastar inn í ofbeldismálin með meira fjármagn, en við sjáum það núna, illu heilli miðað við skelfilega aukningu sem hefur verið, (Forseti hringir.) að nú erum við að stíga fastar inn í það. Þarna nefni ég tvö atriði. En fjölþætti vandinn er eitthvað (Forseti hringir.) sem við sem samfélag og stjórnvöld eigum núna að stíga skrefið gagnvart vegna þess að það liggja fyrir tillögur um (Forseti hringir.) að gera það og við erum með áætlanir um hvernig það þarf að gerast.