155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[14:45]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir sína framsögu á þessum stóra og flókna málaflokki. Ég vil leyfa mér að drepa fyrst niður fæti í almennum þætti sem fram kom í máli ráðherra þar sem hann var að tala um aukningu framlaga þessarar ríkisstjórnar til heilbrigðismála og ræddi þar um tvöföldun í því samhengi. Ég vil einfaldlega spyrja ráðherrann hvort þessi tvöföldun, innihaldið þá, það fjármagn sem fer í uppbyggingu á nýjum Landspítala, hvort það fjármagn sem í það fer sé hluti af þessari framsetningu hæstv. ráðherra, þ.e. framkvæmdakostnaður innan heilbrigðismálaflokksins en ekki bara rekstrarkostnaður. En gott og vel, ég er aðallega komin hingað upp til að spyrja hvaða aðgerðir eigi að ráðast í til að takast á við aukna vanlíðan í samfélaginu; það sem kallað hefur verið ópíóíðafaraldur, það sem við höfum séð sem aukningu eða a.m.k. upplifað sem aukningu þegar kemur að sjálfsvígum. Við vitum að það er gríðarlega mikil vanlíðan. Ég sakna þess að sjá í þessu fjárlagafrumvarpi konkret aðgerðir, ætlaðar til þess að bregðast við því sem ætla má að kalli á umtalsvert meiri aðgerðir heldur en farið hefur verið í fram að þessu til að styðja við geðheilbrigði, ekki bara ungs fólks heldur líka eldra fólks sem við vitum að þarf mikið að kljást við einmanaleika.

Mig langar líka að koma inn á hvernig við komum fram við fólk með alvarlegan geðrænan vanda í heilbrigðiskerfinu og alvarlegan hegðunarvanda sem hlýst af sjúkdómum og öðru. Ég næ því ekki í þessari fyrri spurningu minni en ég vil sannarlega spyrja hæstv. ráðherra: Hvað á að gera til að bregðast við blikum á lofti, miklu neyðarástandi þegar kemur að geðheilbrigði þjóðarinnar? Ég fæ ekki séð í þessu fjárlagafrumvarpi að verið sé að bæta í í þeim efnum.