155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[14:59]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Við hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir erum sammála um þessa kjarnaspurningu. Við eigum að læra af öðrum þjóðum eins og Svíum og reyna að taka mið af því. Við höfum lagt áherslu á það að kjarninn í stefnunni gangi upp, þ.e. jafnt aðgengi óháð efnahag og búsetu. Þess vegna, með fólkið sem þarf á þjónustunni að halda í huga, ekki síst þá tekjulægri, sömdum við við sérgreinalækna. Þess vegna höfum við gert samninga um ýmiss konar lýðheilsutengdar aðgerðir en í gegnum hið opinbera sjúkratryggingakerfi og í samvinnu við okkar opinberu stofnanir, þar sem þarf að létta á álagi og nýta alla getu í kerfinu eins og það er byggt upp og auka þannig hagkvæmni, skilvirkni og gagnsæi þannig að stefnan gangi upp. (Forseti hringir.) Á það höfum við lagt áherslu og það hefur gengið vel. Ég er sannfærður um að við getum aukið hagkvæmnina og nýtinguna á mannauðinum í kerfinu með þessum hætti.