155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[16:24]
Horfa

Jóhann Friðrik Friðriksson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka utanríkisráðherra fyrir hennar yfirferð. Vissulega er málaflokkur utanríkismála veigamikill í fjárlögum. Í heild má segja að þau fjárlög sem við fjöllum hér um séu í takt við þá stefnumótun sem stjórnvöld hafa lagt áherslu á í málaflokknum á undanförnum árum og hefur verið töluvert mikil sátt um, leyfi ég mér að segja. Ef horft er á áherslur í utanríkismálum í löndunum í kringum okkur þá hefur sáttin hér innan þings og meðal þjóðar verið töluvert mikil og ber að þakka fyrir það. Það kemur fram í fjárlagafrumvarpinu að sú aukning sem á sér stað m.a. varðandi stuðning við Úkraínu sé umtalsverð. En það er einnig nefnt að fjárframlög verði styrkt varðandi önnur varnartengd verkefni, auk þátttöku í alþjóðlegu samstarfi o.s.frv. Þar er sérstaklega nefnt, með leyfi forseti, að það þurfi að styrkja viðbúnað „komi til þess að það reyni frekar á ákvæði samnings um Atlantshafsbandalagið“. Mér finnst þetta sterkt að orði kveðið og skiptir vitaskuld mjög miklu máli í ljósi breytts öryggisástands í álfunni. Mig langar kannski ekki að spyrja ráðherrann sérstaklega út í viðbúnað okkar heldur frekar út í þann samfélagslega viðbúnað sem við höfum rætt hér á þingi varðandi áfallaþol þjóðarinnar í heild sinni. Okkar samstarfs- og vinaþjóðir hafa verið að efla áfallaþol markvisst. Hvað telur ráðherrann okkur vera að gera í því efni og hvernig getum við bætt það enn frekar?