155. löggjafarþing — 4. fundur,  13. sept. 2024.

fjárlög 2025.

1. mál
[16:37]
Horfa

Bjarni Jónsson (Vg):

Virðulegi forseti. Stuðningur Íslands við Úkraínu hefur verið einlægur og mikill, ekki síst á þeim sviðum sem er á okkar valdi sem lítillar vopnlausrar þjóðar að geta lagt til umfram smæð okkar til að styrkja úkraínsku þjóðina; staðið með þeim á alþjóðavettvangi og tekið forystu eins og á leiðtogafundi Evrópuráðsins í Reykjavík vorið 2023. Samþykkt tjónaskrárinnar og víðtækur stuðningur við hana markaði tímamót í þeirri vegferð að draga til ábyrgðar þá sem standa fyrir og fremja hræðilega stríðsglæpi gagnvart úkraínsku þjóðinni í innrásarstríði Rússa. Þá höfum við lagt sérstaka áherslu á að standa með Úkraínu í að hafa upp á þeim börnum og endurheimta sem hafa verið numin á brott af rússneska innrásarliðinu og sameina þau fjölskyldum sínum. Skemmst er að minnast ályktunar Alþingis um að fordæma ólöglegt brottnám úkraínskra barna þar sem við vorum fyrst þjóðþinga til að álykta þar um en fleiri hafa síðan fylgt okkar fordæmi.

Ég vil spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvernig hún sjái fyrir sér að fylgja þessum veigamiklu málum eftir fyrir Íslands hönd. Einnig að standa vaktina um að stríðsglæpamönnum verði ekki gefnar upp sakir eða þeim sleppt við að axla ábyrgð í mögulegum friðarsamningum í framtíðinni sem ávallt yrðu að vera á forsendum úkraínsku þjóðarinnar og að aðstoða úkraínsku þjóðina við að hafa upp á þeim börnum sem hafa verið numin á brott. Það er alveg ljóst að slík vinna af hálfu Íslands kostar ekki síður fjármuni og er mikilvægur hluti stuðnings Íslands við Úkraínu.